FA/SÍA og Grafía undirrita kjarasamning

21.05.2019
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, og Georg Páll Skúlason, formaður Grafíu, takast í hendur við undirritun samningsins.

Félag atvinnurekenda og Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA) hafa undirritað nýjan kjarasamning við Grafíu, stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum. Samningurinn er í öllum aðalatriðum samhljóða samningum FA við VR og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna sem undirritaðir voru í síðasta mánuði. Þannig eru launabreytingar og forsendur samninganna þær sömu.

Samið var um styttingu vinnuvikunnar úr 36 stundum í 35 og kemur sú breyting til framkvæmda 1. apríl á næsta ári. Á móti kemur rýmkun á skilgreiningu dagvinnutíma, sem verður frá sama tíma tíminn frá kl. 7 að morgni til kl. 18 að kvöldi. Það þýðir að skipuleggja má sjö stunda dagvinnu innan þess tímabils. Samningurinn gerir ráð fyrir að atvinnurekandi hafi samráð við starfsmenn um styttingu vinnutímans á hverjum vinnustað.

Samhliða styttingu vinnutímans koma inn í samninginn ný ákvæði um yfirvinnu, sem taka gildi á næsta ári. Hún skiptist framvegis í yfirvinnu 1, sem greiðist með tímakaupi sem samsvarar 1% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu, og yfirvinnu 2, sem er greidd fyrir virkan vinnutíma umfram 41 klst. á viku að meðaltali á launatímabili eða mánuði. Yfirvinna 2 greiðist með tímakaupi sem samsvarar 1,15% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Samkomulag náðist einnig um aukinn veikindarétt starfsmanna sem hafa verið lengi í starfi.

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum í FA/SÍA á félagsfundi fljótlega eins og lög félagsins kveða á um.

 

Nýjar fréttir

Innskráning