Félag atvinnurekenda og Félag lykilmanna gera kjarasamning

05.09.2018
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, og Gunnar Páll Pálsson, formaður FLM, takast í hendur eftir undirritun samningsins.

Félag atvinnurekenda (FA) og Félag lykilmanna (FLM) undirrituðu í dag kjarasamning félaganna. Um er að ræða fyrsta kjarasamninginn, sem FLM gerir við samtök vinnuveitenda.

FLM er stéttarfélag stjórnenda og sérfræðinga og markmið þess er að styrkja stöðu félagsmanna á almennum vinnumarkaði og stuðla að tekjuöryggi þeirra. Félagið hefur starfað frá árinu 2012. „FLM hentar vel þeim sem ekki eru í stéttarfélögum eða kjósa að standa utan hefðbundinna stéttarfélaga. FLM er óháð stéttarfélag sem félagar á hverjum tíma eiga,“ segir Gunnar Páll Pálsson, formaður FLM.

Samningur FLM og FA er um margt sambærilegur við gildandi samning FA og Félags lyfjafræðinga að því leyti að hann er ekki gerður til ákveðins tíma og inniheldur ekki sérstakan launalið, heldur er gengið út frá því að félagsmenn FLM séu stjórnendur og sérfræðingar sem semja á einstaklingsgrundvelli um markaðslaun. Samningurinn kveður fyrst og fremst á um ýmis réttindamál á borð við ráðningarsamninga, starfsmannaviðtöl, orlof, veikindarétt, tryggingar og fleira slíkt.

„FLM og FA hafa verið í samskiptum um gerð kjarasamnings allt frá árinu 2014. Nú var að mati beggja aðila orðið tímabært að ljúka þeim samningum, enda er talsverður hópur félagsmanna í FLM nú í vinnu hjá aðildarfyrirtækjum FA. Með gerð kjarasamnings eru réttindi þessa hóps betur tryggð en áður, sem er sameiginlegt hagsmuna- og metnaðarmál vinnuveitenda og launþega sem í hlut eiga,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Samningurinn er gerður með fyrirvara um niðurstöðu atkvæðagreiðslu félagsmanna FLM sem starfa hjá aðildarfyrirtækjum FA og með fyrirvara um samþykki stjórnar FA. Hann verður kynntur félagsmönnum í báðum félögum fljótlega.

Vefur Félags lykilmanna

Nýjar fréttir

Innskráning