Félag lítilla og meðalstórkaupmanna

19.10.2021

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Fréttablaðinu 19. október 2021.

Umfjöllun um félagsmenn FA birtist vikulega á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #félagsmaðurvikunnar. Hér eru nokkrir slíkir. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Stofnun nýs hagsmunafélags lítilla og meðalstórra fyrirtækja, Atvinnufjelagsins, er á döfinni. Frá bæjardyrum Félags atvinnurekenda (FA) séð er stofnun þessa félags fagnaðarefni; við höfum haft þá afstöðu að samkeppni í hagsmunagæzlu fyrir fyrirtæki sé af hinu góða, rétt eins og á öðrum mörkuðum og að því fleiri sem láta sig hag fyrirtækjanna varða, þeim mun betra sé það. Það er því ástæða til að bjóða Atvinnufjelagið velkomið til leiks. FA dregur ekki í efa að tilefni verður til samstarfs og samstöðu með hinu nýja félagi þegar fram líða stundir, enda erum við í sama liði, með fyrirtækjunum í landinu.

Stofnendur félagsins virðast hins vegar að einhverju leyti hafa fengið rangar upplýsingar um starfsemi FA, sem meðal annars komu fram í grein Ómars Pálmasonar, stjórnarmanns í undirbúningsstjórn Atvinnufjelagsins, í Fréttablaðinu síðastliðinn fimmtudag. Mér er ljúft og skylt að leiðrétta nokkur atriði.

Lítil og meðalstór fyrirtæki eru uppistaðan
Í fyrsta lagi heldur Ómar því fram að áherzla FA á lítil og meðalstór fyrirtæki sé nýtilkomin og að félagið hafi reynt að höfða til „þessa hóps sem aldrei hefur átt þar rödd.“ Félagið höfði til „fámenns hóps stórfyrirtækja“. Þetta eru mikil öfugmæli. Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja í FA eru lítil og meðalstór fyrirtæki og þau eiga þar svo sannarlega rödd. Í stjórn félagsins sitja til dæmis fulltrúar fyrirtækja með tvo, tíu, tuttugu, 40, 100 og 180 starfsmenn. Reglulega er leitað eftir sjónarmiðum og tillögum félagsmanna um það hvernig félagið geti bætt þjónustuna við þá og baráttu sína fyrir hagsmunum félagsmanna og þaðan eru sprottin flest baráttumál félagsins. Þar má nefna áherzlu á lægri fyrirtækjaskatta og eftirlitsgjöld, lækkun og afnám tolla og vörugjalda, einfaldara regluverk fyrir fyrirtækin, lækkun launatengds kostnaðar og skilvirkari samkeppnislöggjöf og -eftirlit sem verji smærri fyrirtækin fyrir ofríki þeirra stærri eða hins opinbera.

Auglýsing um nafnbreytingu félagsins. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Nafnbreyting af gildri ástæðu
Annar af stofnendum Atvinnufjelagsins, Þorkell Sigurlaugsson, vísaði í útvarpsviðtali á dögunum til fyrra nafns FA, Félag stórkaupmanna, til vitnis um að félagið væri ekki hugsað fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Nafni félagsins var einmitt breytt árið 2010 vegna þess að það endurspeglaði ekki lengur fyrirtækin í félaginu. Þau voru þá langflest lítil og meðalstór fyrirtæki í verslun og milliríkjaviðskiptum, félög í sjálfstæðum rekstri sem oft einkennist af því að eigendurnir reka þau sjálfir. Við nafnabreytinguna ítrekaði FA að félagið væri málsvari minni og meðalstórra fyrirtækja. Sú áherzla hefur ekki breytzt.

Eitt fyrirtæki – eitt atkvæði
Á árunum sem síðan eru liðin hefur hópur félagsmanna FA breikkað verulega. Félagið hefur oft verið kostur minni fyrirtækja sem veita stór- eða ríkisfyrirtækjum samkeppni og hrista upp í markaðnum, til dæmis í flutningum, fjarskiptum, eldsneytissölu, áætlunarflugi, póstdreifingu, fræðslustarfsemi og þannig mætti áfram telja. Sum þessara fyrirtækja hafa orðið stór – en það þýðir ekki að þau séu ráðandi innan félagsins.

Ómar gleymdi nefnilega í öðru lagi að fjalla um það, þegar hann gagnrýndi Samtök atvinnulífsins fyrir að þar færi atkvæðavægið eftir stærð fyrirtækja og þeir stóru réðu, að þannig er Félag atvinnurekenda ekki byggt upp. Í félaginu hefur hvert fyrirtæki eitt atkvæði.

Fyrirtækin nota þjónustuna og eru ánægð með hana
Í þriðja lagi skrifar Ómar að flest lítil og meðalstór fyrirtæki nýti sér ekki þjónustu atvinnurekendasamtakanna nema að litlu leyti. Nú get ég ekki svarað fyrir Samtök atvinnulífsins, en hjá FA gerum við reglulega kannanir meðal aðildarfyrirtækja okkar og niðurstaðan úr þeirri síðustu var t.d. að 77% félagsmanna nýttu lögfræðiþjónustuna okkar, 68% nýttu aðstoð við hagsmunagæzlu, 54% nýttu þjónustu vegna kjarasamninga og 49% fylgdust með félagsfundum. Þá er ónefnd upplýsingaþjónusta sem FA hefur veitt félagsmönnum sínum um þróun heimsfaraldursins, lög og reglur, sóttvarnir og stuðningsúrræði og 93% félagsmanna nýttu sér á síðasta ári.

Á heildina litið segjast 83% félagsmanna FA ánægðir eða mjög ánægðir með þjónustu félagsins og er þar ekki munur á stærri og minni fyrirtækjum, enda leggjum við okkur fram um að veita öllum félagsmönnum góða þjónustu. Það má hins vegar alltaf gera enn betur og stofnun nýs atvinnurekendafélags er að sjálfsögðu hvatning í því efni. Samkeppni brýnir menn alltaf til dáða og þess vegna er ástæða til að fagna stofnun Atvinnufjelagsins.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning