Félagsfundir FA með frambjóðendum til Alþingis

28.09.2016

AlthingiFélag atvinnurekenda áformar að halda þrjá félagsfundi í aðdraganda komandi þingkosninga með frambjóðendum til Alþingis og ræða mál sem snerta hagsmuni félagsmanna og atvinnulífsins í heild. Dagsetningar fundanna eru sem hér segir:

5. október: Landbúnaðar- og tollamál
12. október: Sjávarútvegsmál – í samstarfi við Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ)
19. október: Samkeppnismál og regluverk atvinnulífsins

Óskað hefur verið eftir því við Bjarta framtíð, Framsóknarflokkinn, Pírata, Samfylkinguna, Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Vinstrihreyfinguna – grænt framboð að frambjóðendur flokkanna taki þátt í fundunum.

Fundirnir verða haldnir í fundarsal FA í Húsi verslunarinnar. Þetta verða morgunverðarfundir sem hefjast kl. 8.30 stundvíslega og lýkur kl. 10. Þeir hefjast á fimm mínútna inngangi frá FA (SFÚ þann 12.) um þau mál sem félagið telur mikilvæg í pólitíkinni út frá hagsmunum atvinnulífsins. Frambjóðendur fá þrjár hnitmiðaðar spurningar frá FA fyrir hvern fund. Að loknum inngangi eru svo þrjár umferðir, þar sem frambjóðendur svara einni spurningu í hverri umferð. Hverjum frambjóðanda eru ætlaðar þar tvær mínútur, sem  þýðir að hver umferð er u.þ.b. 15 mínútur. Seinnipart fundar gefast svo um það bil 40 mínútur fyrir spurningar úr sal og almennar umræður. Fundirnir verða nákvæmlega 90 mínútur og verða í beinni útsendingu á Facebook-síðu FA.

Fundirnir verða kynntir nánar hver fyrir sig þegar nær dregur. Hér að neðan má lesa þær spurningar sem FA hefur sent stjórnmálaflokkunum með beiðni sinni um að frambjóðendur taki þátt í fundunum.

Spurningar fyrir hvern fund

  • Landbúnaðar- og tollamál
  1. Hvaða breytingar á að setja í forgang við endurskoðun búvörusamninganna?
  2. Vill þinn flokkur viðhalda því fyrirkomulagi að bjóða upp tollkvóta (heimildir til að flytja inn búvörur á lágum eða engum tollum)?
  3. Eru það verndarsjónarmið sem búa að baki 76% tolli á franskar kartöflur? Mun þinn flokkur beita sér  fyrir afnámi þessara gjalda þegar fyrir liggur að nær ekkert íslenskt hráefni er í innlendri framleiðslu?
  • Sjávarútvegsmál
  1. Vill þinn flokkur beita sér fyrir því að fiskmarkaðsverð verði notað sem skiptaverð alls bolfiskafla sem veiddur er við Ísland?
  2. Vill þinn flokkur beita sér fyrir því að ráðherra hrindi í framkvæmd tilmælum Samkeppniseftirlitsins frá því í nóvember 2012, um afnám samkeppnishamla í sjávarútvegi?
  3. Vill þinn flokkur beita sér fyrir því að íslenskur sjávarútvegur falli að öllu leyti undir ákvæði samkeppnislaga, án undantekninga? Ef ekki, hvers vegna?
  • Samkeppnismál og regluverk atvinnulífsins
  1. Hvernig finnst þér hafa tekist til með framkvæmd stefnu núverandi ríkisstjórnar um einföldun regluverks atvinnulífsins?
  2. Ætti að setja þá reglu að við innleiðingu Evrópulöggjafar í íslenskan rétt sé engum íþyngjandi kröfum á atvinnulífið bætt við?
  3. Er þinn flokkur hlynntur eflingu Samkeppniseftirlitsins, til dæmis með lögbundnum málsmeðferðarfrestum, beinum úrræðum gagnvart stjórnvöldum og hækkun sekta?

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning