Félagsfundur 5. september: Varaseðlabankastjóri ræðir efnahagshorfur

30.08.2024

Á fyrsta félagsfundi haustsins fræðir Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu félagsmenn FA um stöðu og horfur í efnahagsmálum. Vaxtastigið, verðbólgan, launakostnaður, staðan á vinnumarkaði og þaninn húsnæðismarkaður eru til umræðu í atvinnulífinu þessa dagana og gagnlegt fyrir stjórnendur aðildarfyrirtækja að fá innsýn varaseðlabankastjóra í þessi mál og horfurnar framundan, nú þegar margir liggja yfir áætlunum næsta árs. Fundurinn er morgunverðarfundur og verður haldinn kl. 8.30-10 fimmtudaginn 5. september.

Fundurinn verður haldinn í fundarsal Félags atvinnurekenda í Skeifunni 11. Við hvetjum félagsmenn til að mæta og fá sér léttan morgunverð, hlusta á áhugavert erindi og spyrja varaseðlabankastjórann út í peningastefnuna og efnahagshorfur. Skráning á fundinn er á hlekknum hér að neðan.

Rannveig Sigurðardóttir hefur starfað í Seðlabanka Íslands frá árinu 2002, sem varaseðlabankastjóri peningastefnu og aðstoðarseðlabankastjóri síðastliðin fimm ár. Áður var hún staðgengill aðalhagfræðings og aðstoðarframkvæmdastjóri hagfræði- og peningastefnusviðs bankans. Rannveig hefur jafnframt verið ritari peningastefnunefndar og sinnt verkefnum er lúta að samstarfi Seðlabankans og OECD. Áður starfaði Rannveig sem hagfræðingur BSRB og Alþýðusambands Íslands. Rannveig er hagfræðingur að mennt og lauk fil. kand. prófi og meistaraprófi í hagfræði frá Gautaborgarháskóla og stundaði þar doktorsnám.

Skráning á morgunverðarfund um efnahagsmál 5. september

Nýjar fréttir

Innskráning