Félagsfundur um jafnlaunavottun og -staðfestingu 9. mars

25.02.2022

Félag atvinnurekenda efnir til félagsfundar á Zoom 9. mars kl. 10-11 um jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu. Farið verður yfir muninn á jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu og ýmis praktísk atriði sem fyrirtæki þurfa að hafa í huga áður en þau hefja jafnlaunavottunarferli.

Samkvæmt reglugerð um jafnlaunavottun eiga fyrirtæki með 25-89 starfsmenn að vera komin með jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu í lok ársins. Fjölmennari fyrirtæki eiga þegar að vera komin með jafnlaunavottun. Jafnlaunastaðfesting er einfaldari leið, sem stendur fyrirtækjum með 25-49 starfsmenn til boða. Sjá má í töflunni hér til hliðar hvernig tímamörk fyrir fyrirtæki af mismunandi stærð líta út samkvæmt reglugerðinni.

Samkvæmt samantekt Jafnréttisstofu, sem birt var í janúar, um stöðu jafnlaunavottunar um áramót, vantar enn talsvert upp á að fyrirtæki sem áttu að vera komin með jafnlaunavottun fyrir árslok 2021, hafi fengið hana. Sjá má stöðuna með myndrænum hætti hér til hliðar. Staðan er nokkuð góð hjá stærri fyrirtækjum, en minnihluti fyrirtækja með 90-149 starfsmenn, sem áttu að hafa hlotið jafnlaunavottun um áramót, hefur lokið ferlinu. Jafnréttisstofa boðar að fyrirtæki, sem áttu að vera búin að ljúka jafnlaunavottun á árunum 2019 og 2020 en hafa ekki gert það, verði beitt dagsektum. 

Í könnun FA meðal félagsmanna, sem gerð var í byrjun febrúar, kom fram að öll fyrirtæki með 90 til 149 starfsmenn, sem svöruðu könnuninni, hefðu lokið jafnlaunavottunarferlinu, sem er mun betri staða en hjá fyrirtækjum af þessari stærð almennt. 

70% fyrirtækja með 25-89 starfsmenn ekki búin að sækja um
Er fyrirtæki með 25-89 starfsmenn voru spurð út í stöðuna hjá sér, reyndust um 20% hafa fengið jafnlaunavottun nú þegar, 10% höfðu sótt um vottun en 70% höfðu ekki sótt um. Eins og áður segir, eiga þessi fyrirtæki að hafa fengið jafnlaunavottun fyrir lok ársins. Til fundarins er efnt m.a. til að hvetja þennan hóp fyrirtækja til að sækja um jafnlaunavottun með góðum fyrirvara, ekki síst til að forðast flöskuhálsa hjá vottunarfyrirtækjum sem orðið geta til ef alltof mörg fyrirtæki sækja ekki um vottun fyrr en undir lok ársins. Þá vill FA stuðla að fræðslu og upplýsingagjöf meðal félagsmanna um jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu og þann undirbúning, sem er nauðsynlegur fyrir ferlið. 

Dagskrá
10.00 Inngangur – Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA
10.05 Um jafnlaunavottun – Kristín Ólafs Önnudóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu
10.20 Um jafnlaunastaðfestingu – Bryndís Elfa Valdemarsdóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu
10.35 Hvað þarf að hafa í huga áður en sótt er um jafnlaunavottun eða -staðfestingu? – Falasteen Abu Libdeh, framkvæmdastjóri hjá Ráði
10.50 Spurt og svarað

Hægt er að skrá sig á fundinn hér fyrir neðan. Skráðir félagsmenn fá sendan hlekk til að taka þátt í fundinum með góðum fyrirvara. 

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning