Félagsmannaveiðar

27.10.2022

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 27. október 2022.

Sitt sýnist hverjum um frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem ætlað er að tryggja rétt launþega til að standa utan stéttarfélaga. Sá réttur er tryggður í stjórnarskránni og alþjóðasamningum, en ákvæði í vinnumarkaðslöggjöf og forgangsréttarákvæði kjarasamninga hola hann að innan; þvinga fólk til að greiða félagsgjöld til stéttarfélaga og taka þátt í verkföllum þeirra jafnvel þótt það standi utan þeirra og fái þá ekki greitt úr verkfallssjóðum.

Mörg stór orð hafa verið höfð uppi um þetta frumvarp. Það hefur verið kallað aðför að verkalýðshreyfingunni og launafólki. Því hefur verið haldið fram að næði það fram að ganga myndi fólk, sem stendur utan stéttarfélaga, hafa lakari tryggingar ef það veikist eða slasast og ekki njóta þeirrar margvíslegu þjónustu og styrkja sem stéttarfélögin veita.

Ef þetta er allt rétt þarf verkalýðshreyfingin ekki að hafa nokkrar einustu áhyggjur af því að borin sé virðing fyrir stjórnarskránni. Það dettur þá engum viti bornum launþega í hug að standa utan stéttarfélaganna og missa af þeim gæðum sem þau útdeila. Vel rekin stéttarfélög, sem veita félagsmönnum sínum góða þjónustu og berjast með skilvirkum hætti fyrir hag þeirra, munu engu tapa á því að félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og alþjóðasáttmála séu virt.

Stéttarfélögin myndu hins vegar fá meira aðhald þegar launþegar greiddu þeim félagsgjöld af fúsum og frjálsum vilja. Ætla má að þau yrðu að sýna betur fram á hagkvæmni og ráðdeild í rekstri sínum og þjónustu og að þau legðu raunverulega aðaláherzlu á baráttu fyrir hagsmunum félagsmanna sinna, en ekki t.d. prívatskoðunum forsvarsmanna sinna.  

Trúnaðarráð Stéttarfélagsins Bárunnar kallar slíkt með fyrirlitningu „félagsmannaveiðar“. Þar á bæ finnst fólki augljóslega þægilegra að félagsmennirnir séu bundnir á bás, þannig að það þurfi ekki að sannfæra þá um gildi þess að vera í félaginu.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning