Félagsmenn íhugi að fresta innflutningi

09.12.2014

Félag atvinnurekenda hefur sent félagsmönnum ábendingu um að þeir íhugi að fresta innflutningi vöru til áramóta, þegar ný lög um niðurfellingu vörugjalds taka gildi.

 

FA hefur bent bæði fjármálaráðuneytinu og Alþingi á það ójafnræði innlendra framleiðenda og innflytjenda að þeir síðarnefndu geti með einföldum hætti tekið vörugjaldið af reikningum, sem þeir dagsetja 1. janúar, en innflytjendur verði að greiða vörugjald af vörunni við tollafgreiðslu fram til áramóta, þótt hún verði seld síðar. Ekki hefur komið fram neinn vilji til að bregðast við þessum ábendingum.

 

Eftirfarandi ábending hefur því verið send til aðildarfyrirtækja FA:

 

 

Kæri félagsmaður.

 

Um árabil hefur FA barizt fyrir niðurfellingu vörugjalda og stefnir nú í ákveðinn áfangasigur í þeim efnum. Þannig liggur nú fyrir Alþingi frumvarp um niðurfellingu vörugjalda á stórum vöruflokkum. Frumvarpið mun í óbreyttri mynd taka gildi 1. janúar 2015.

 

Innfluttar vörur sem tollafgreiddar eru fyrir þann dag munu hins vegar afgreiddar samkvæmt núgildandi lögum og því með vörugjöldum. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar FA munu þau gjöld sem greidd hafa verið ekki endurgreidd eftir gildistöku nýrra laga, af vörum á lager sem hafa verið tollafgreiddar, en ekki verið seldar. Er því komin upp sú staða að kostnaðarverð vöru verður annað á nýju ári eftir því hvenær hún var tollafgreidd.

 

Þetta fyrirkomulag mismunar innflytjendum og innlendum framleiðendum, en þeir síðarnefndu geta með einföldum hætti tekið vörugjaldið af reikningum sem þeir dagsetja 1. janúar. Hafa Alþingi og fjármálaráðuneytið ekki sýnt neinn vilja til að vinda ofan af því misræmi.

 

Í ljósi framangreinds beinir FA því til félagsmanna sinna að skoða vel að fresta innflutningi og tollafgreiðslu á vörum sínum eftir því sem mögulegt er fram til gildistöku hinna nýju laga.

Nýjar fréttir

Innskráning