Ferskvaran og vísindin

27.07.2017

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 27. júlí 2017.

Eftir fáeina mánuði munu bæði Hæstiréttur og EFTA-dómstólinn að öllum líkindum úrskurða bann við innflutningi ferskrar búvöru; kjöts, eggja og vara úr ógerilsneyddri mjólk, ólögmætt og í andstöðu við EES-samninginn. Viðkomandi dómsmál eru tilkomin eftir að íslenzka ríkið gekk á bak samningum sínum við Evrópusambandið um að heilbrigðislöggjöf þess á sviði landbúnaðar yrði tekin upp í EES-samninginn og þannig yrði frjálst flæði ferskrar búvöru á öllu svæðinu.

Margir hafa orðið til að spá því að afnám innflutningsbanns myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu dýra og manna. Vegna þessarar umræðu leitaði Félag atvinnurekenda til tveggja óháðra vísindamanna með áratugareynslu af matvælaeftirliti og matvælaöryggi. Þeir skiluðu FA skýrslu þar sem komizt var að þeirri niðurstöðu að ekki stæðu rök til þess að innflutningur ferskvöru ógnaði heilsu manna eða dýra. Ekki væri heldur hægt að fullyrða – eins og iðulega er gert – að innflutningur þessara vara myndi stuðla að útbreiðslu lyfjaónæmra baktería. Þeirri niðurstöðu til stuðnings var vitnað til nýlegra vísindarannsókna.

Niðurstaðan var dregin í efa af læknaprófessor sem þurfti örfáa klukkutíma til að lesa 64 bls. skýrslu, rýna rannsóknirnar sem lágu að baki og kveða upp „vísindalegan“ dóm í viðtali við Bændablaðið. Prófessorinn gerði að ósekju lítið úr þekkingu skýrsluhöfunda, sem eru bæði sérfróðir um faraldsfræði og smitsjúkdóma dýra og um það evrópska eftirlitskerfi, sem sett hefur verið upp til að lágmarka áhættu af frjálsum viðskiptum með matvöru.

Það væri ótækt ef ekki yrði tekið mark á niðurstöðum dómstóla og íslenzka ríkið héldi áfram að brjóta gegn alþjóðaskuldbindingum á grundvelli órökstudds ótta við breytingar. Það er nær að stjórnvöld byrji strax að undirbúa hvernig þau geti afnumið innflutningsbannið og gripið til minna íþyngjandi varnaraðgerða, sem bent er á í skýrslu FA.

Nýjar fréttir

Innskráning