Fimm flokkar vilja afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins

05.10.2016

IMG_2809Fimm flokkar sem eru í framboði fyrir Alþingiskosningarnar síðar í mánuðinum vilja afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum. Framsóknarflokkurinn er ekki með það mál á stefnuskrá sinni en frambjóðandi VG segist vilja skoða málið.

Þetta var á meðal þess sem fram kom á fundi Félags atvinnurekenda um landbúnaðar- og tollamál, sem haldinn var í morgun. Frambjóðendur sjö flokka svöruðu þar spurningum sem FA hafði lagt fyrir þá og jafnframt spurningum úr sal.

Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólkurbúsins Kú, spurði frambjóðendur hvort þeir vildu afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum. Björt Ólafsdóttir, Bjartri framtíð, Smári McCarthy, Pírötum, Árni Páll Árnason, Samfylkingu og Pawel Bartoszek, Viðreisn, svöruðu öll með skýru jáyrði; að þeirra flokkar vildu afnema undanþáguna. Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, tók í sama streng og sagði að það væri „algjört lykilatriði að þetta sé í skýru samkeppnisumhverfi.“ Guðlaugur sagðist jafnframt vilja sameina stofnanir sem sinntu samkeppnismálum; Samkeppnisstofnun, Póst- og fjarskiptastofnun og samkeppnishluta Orkustofnunar.

Þórunn Egilsdóttir, frambjóðandi Framsóknarflokksins, sagði hins vegar að flokkur hennar stefndi ekki að afnámi undanþágunnar og skoða þyrfti í heildarsamhengi hvaða hagsmuni væri verið að verja. Kolbeinn Óttarsson Proppé, frambjóðandi VG, sagðist ekki vilja lofa Ólafi því að beita sér fyrir afnámi undanþágunnar, „En ég skal lofa þér því að ég mun kynna mér málið í þaula og taka skynsamlega afstöðu, því að það á ekki að vera eitthvert svona lagaákvæði sem meikar ekki sens í raunveruleikanum,“ sagði Kolbeinn.

Á fundinum fóru fram líflegar umræður um landbúnaðar- og tollamál. Fundurinn var í beinni útsendingu á Facebook-síðu FA og er hægt að horfa á upptöku af honum þar.

 

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning