Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði á landinu öllu hafi hækkað úr um 18 milljörðum króna í 23 milljarða á síðustu fimm árum. Þetta samsvarar 29% hækkun. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, gagnrýnir sveitarfélögin harðlega fyrir að hirða skattahækkanir sem orsakist af hækkunum fasteignamats, í stað þess að sýna fyrirtækjum sömu sanngirni og eigendum íbúðarhúsnæðis og lækka álagningarprósentu á mótti hærra fasteignamati.
„Í greinargerð með lögum um tekjustofna sveitarfélaganna stendur að fasteignagjöldin séu endurgjald fyrir veitta þjónustu sveitarfélaganna en ekki eignarskattur,“ segir Ólafur í viðtali við Viðskiptablaðið. „Við höfum skrifað sveitarfélögum og farið fram á kostnaðarútreikninga á álagningu gjaldsins og þeir eru ekki til. Þannig að sveitarfélögin hafa umgengist þetta sem eignarskatt.“
Út úr öllu korti
„Skattstofninn byggir á mati Þjóðskrár á því hvaða tekjur menn geti haft af eign sinni. Það liggur fyrir að fasteignamat er miklu hærra í miðbænum, Kringlunni eða Smáralind en annars staðar. Það eru engin rök fyrir því að dýrara sé að þjónusta fyrirtæki á þessum svæðum en annars staðar. Strax þar er ástæða til að skoða málið. En skattbyrðin undanfarin ár vegna hækkana á fasteignamati hefur þyngst um tugi prósenta og er út úr korti við alla verðlagsþróun og oftast nær út úr öllu korti við það sem er að gerast í rekstri fyrirtækjanna. Sveitarfélögin hafa fengið stórauknar tekjur í sinn vasa án þess að hafa þurft að veita fyrirtækjum nokkra meiri þjónustu á móti.“
Í umfjöllun Viðskiptablaðsins kemur fram að fimm af sjö stærstu sveitarfélögum landsins halda fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði í lögbundu hámarki. Einu undantekningarnar eru Hafnarfjörður og Kópavogur. Akranes og Stykkishólmur lækkuðu einnig álagningarprósentu á síðasta ári til að mæta miklum hækkunum fasteignamats. „Með því sýna [sveitarfélögin] eigendum atvinnuhúsnæðis sömu sanngirni og eigendum íbúðarhúsnæðis hefur verið sýnd,“ segir Ólafur.
Ólafur segir í viðtalinu að vítahringur hafi myndast. „Ég hef kallað þetta skatteilífðarvél. Fasteignamatið hækkar. Þá neyðast leigufélög til þess að hækka hjá sér leiguna vegna þess að þeirra útgjöld hafa hækkað. Þá lítur Þjóðskrá svo á að eignin sé að færa þeim meiri tekjur og þá hækkar fasteignamatið aftur og svona heldur hringrásin áfram. Það verður með einhverjum ráðum að grípa inn í þetta,“ segir hann.
Þægilegra að láta aðra hagræða
„Það að sveitarfélögin geri ekkert, og Reykjavíkurborg er í þeim hópi, er fullkomið ábyrgðarleysi þar sem við erum að sigla inn í mjög erfiða kjarasamninga og mjög tvísýnt að fyrirtækin geti staðið undir verulegum hækkunum á launakostnaði,“ segir framkvæmdastjóri FA. „Ríkið er að leggja áherslu á að lækka tryggingagjaldið og maður hefði haldið að sveitarfélögin ættu að leggja eitthvað af mörkum. Það er ekki eðlilegt að þessar gríðarlegu hækkanir á fasteignamatinu velti bara sjálfkrafa inn í sveitarsjóðina. Ég held að menn vilji ekki horfast í augu við að þurfa mögulega að hagræða í rekstri. Mönnum finnst þægilegra að það séu fyrirtækin sem þurfi að hagræða hjá sér til að mæta stóraukinni skattbyrði.“