Fiskistofufúskið

23.03.2017

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 23. mars 2017.

Síðasta ríkisstjórn hafði á stefnuskránni að dreifa opinberum störfum um landið. Þungamiðjan í framkvæmdinni var flutningur Fiskistofu úr Hafnarfirði til Akureyrar. Þar var vaðið fram af meira kappi en forsjá. Engin úttekt var gerð á hagkvæmni flutningsins. Starfsfólkið var ekki spurt hvort það langaði að flytjast á milli landshluta. Því síður var gerð úttekt á faglegum ávinningi flutningsins; hvort Fiskistofa yrði betur eða verr í stakk búin að sinna eftirlits- og þjónustuhlutverki sínu gagnvart atvinnulífinu.

Það kemur æ betur á daginn að þetta var algalin ráðstöfun, sem gekk þvert á markmið ríkisstjórnarinnar sem stóð fyrir henni um hagræðingu í rekstri ríkisins. Enginn starfsmaður stofnunarinnar ákvað að flytja með henni nema Fiskistofustjórinn. Kostnaður skattgreiðenda vegna starfslokasamninga og ráðningar og þjálfunar nýs starfsfólks hleypur á tugum milljóna.

Niðurstaðan er að Fiskistofa starfar nú á tveimur stöðum og gæti gert það næstu tvo áratugina eða lengur, á meðan ráðið verður starfsfólk á Akureyri í stað þess sem hættir í Hafnarfirði. Nýlega kom fram í fjölmiðlum að ferðakostnaður stofnunarinnar hefur snarhækkað, meðal annars vegna þess að ráðuneytið sem ákvað flutninginn á ekki almennilegan fjarfundabúnað. Þá stendur dýrt leiguhúsnæði hálftómt.

Stjórnendur Fiskistofu og fyrirtæki í sjávarútvegi eru sammála um að þjónustan hafi versnað og vandræðin í kringum flutningana hafi leitt af sér að stofnunin hafi í raun ekki getað sinnt öllum verkefnum sínum.

Fiskistofuflutningurinn er skólabókardæmi um hvernig er anað áfram með „pólitíska ákvörðun“ sem stenzt engar kröfur um ráðdeild og fagleg vinnubrögð. Við getum verið afar þakklát fyrir að núverandi ríkisstjórn hefur ekki á stefnuskránni að flytja hreppaflutningum neinar stofnanir sem þjónusta atvinnulífið.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning