Fjármálaráðuneytið og PFS ósammála um ástæður taprekstrar Póstsins

17.09.2018

Fjármálaráðuneytið, sem hefur ákveðið að lána Íslandspósti hálfan milljarð af fé skattgreiðenda, og Póst- og fjarskiptastofnun, sem hefur eftirlit með rekstri ríkisfyrirtækisins, virðast ósammála um ástæður taprekstrar Póstsins. Ráðuneytið telur orsökina alþjónustuskyldur Íslandspósts og fækkun bréfa. Eftirlitsstofnunin segir rekstrarvandamál fyrirtækisins ekki vegna alþjónustuskyldna.

Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins, sem birt var síðdegis á föstudag, er rifjuð upp alþjónustuskylda Íslandspósts, sem nær til sendinga allt að 20 kg. Fyrirtækið hefur hins vegar lögvarinn einkarétt á bréfasendingum upp að 50 grömmum.  „Með lánveitingunni tryggir ríkið tímabundið möguleika félagsins til að standa undir þessum skyldum,“ segir í tilkynningunni.

Ráðuneytið: Tap vegna fækkunar bréfa og alþjónustuskyldu
Þar segir jafnframt: „Undanfarinn áratug hefur bréfasendingum farið ört fækkandi um allan heim. Á sama tíma hefur netverslun rutt sér til rúms og pakkasendingum fjölgað. Tekjur af bréfasendingum vegna alþjónustu hafa dregist saman á sama tíma og dreifikerfið hefur stækkað með fjölgun íbúða og fyrirtækja, en auknar tekjur af pakkasendingum hafa ekki dugað til að vega upp á móti samdrætti í bréfasendingum. Þessi þróun hefur haft neikvæð áhrif á efnahag og lausafjárstöðu félagsins.“ Í tilkynningunni segir að Íslandspóst vanti lausafé „til að standa undir skuldbindingum næstu mánuðina og fyrirsjáanlegum taprekstri á yfirstandandi ári, m.a. vegna mikillar fækkunar bréfa…“

Hér virðist ekki horft til þess að í 16. grein póstlaga segir: „Gjaldskrár fyrir alþjónustu skulu taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði.“ Íslandspóstur á þannig ekki að tapa á veitingu alþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun hefur fallist á beiðnir Íslandspósts um tuga prósenta hækkanir á gjaldskrá fyrir bréf í einkarétti undanfarin ár vegna fækkunar bréfa. Gjaldskrár fyrir samkeppnisþjónustu hafa hins vegar hækkað lítið sem ekkert.

Fjármálaráðuneytið virðist ekki horfa til þess heldur að síðustu ár hefur mikill hagnaður verið af einkaréttarþjónustu Íslandspósts, en mikið tap á þjónustu sem rekin er í samkeppni við einkaaðila.

PFS: Viðbótarkostnaður vegna alþjónustu að fullu bættur með gjaldskrárhækkunum
Í nýlegri ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um málefni Íslandspósts, nr. 2/2018, segir hins vegar: „PFS vill þó taka fram, vegna ummæla í tilkynningu ÍSP [Íslandspósts] um fækkun dreifingardaga sem lúta að rekstrarafkomu fyrirtækisins í tengslum við þá alþjónustuskyldu sem í dag hvílir á fyrirtækinu, að stofnunin lítur svo á að ÍSP hafi, í gegnum tíðina, verið bætt upp að fullu í gegnum gjaldskrá félagsins innan einkaréttar allan þann viðbótarkostnað sem félagið hefur haft af því að veita alþjónustu, þ.m.t. dreifingu alla virka daga. Að mati PFS eru því möguleg vandamál í tengslum við afkomu fyrirtækisins ekki tilkomin vegna þeirra skyldna sem hvílt hafa á fyrirtækinu vegna alþjónustu á undanförnum árum, sbr. til hliðsjónar ákvörðun PFS nr. 17/2015. Sjá einnig yfirlýsingar PFS um bókhaldslegan aðskilnað ÍSP.“

Fjárlaganefnd fái upplýsingar upp á borðið
Lánveiting fjármálaráðherra til Íslandspósts er gerð með fyrirvara um heimild í fjáraukalögum. Það er því ljóst að lánveitingin kemur til kasta Alþingis. Félag atvinnurekenda hvetur fjárlaganefnd þingsins til að skoða vel ástæður þess taprekstrar, sem nú er verið að bæta upp með láni af fé skattgreiðenda. Árið 2015 leitaði þáverandi fjárlaganefnd svara um uppruna fjármagns, sem Íslandspóstur hefði nýtt í rekstur sinn og fjárfestingar árin á undan, meðal annars til kaupa á dótturfélögum og lánveitinga til þeirra. Í máli þáverandi formanns nefndarinnar kom fram að ómögulegt hefði reynst að fá þessar upplýsingar.

„Nú gefst fjárlaganefnd Alþingis gott tækifæri til að fá það fram svart á hvítu og opinberlega að Íslandspóstur hafi ekki notað tekjur af einkaréttarþjónustu til að niðurgreiða samkeppnisrekstur,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Nefndin fær líka tækifæri til að spyrja hvað ævintýri í samkeppnisrekstri Íslandspósts, eins og uppbygging sendibílaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, rekstur ePósts, fjárfestingin í prentsmiðjunni Samskiptum og ýmis fleiri hafi kostað. Við bíðum spennt eftir að allar þessar upplýsingar komi fyrir almennings sjónir. Það er afskaplega hæpið að Alþingi samþykki hálfs milljarðs króna innspýtingu af fé skattgreiðenda í rekstur Íslandspósts ef tapið er tilkomið vegna rangra ákvarðana stjórnenda fyrirtækisins um fjárfestingar í samkeppnisrekstri.“

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning