Fyrsti félagsfundur vetrarins fór fram í morgun. Gestir fundarins voru margir og var þéttsetið í sal Félags atvinnurekenda í morgunsárið.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands var framsögumaður fundarins. Ræddi hann um þróun og horfur í íslenskum efnahagsmálum en nýverið kom út uppfærð spá Seðlabanka Íslands þegar þeir gáfu út Peningamál þann 22. september síðastliðinn. Horfur hafa versnað hér á landi sem og erlendis, fjárfestingastigið er enn of lágt og verðbólgan enn of há. Vinnumarkaðurinn hefur þó sýnt mikinn bata og hefur starfandi fjölgað um 1,9% á öðrum fjórðungi ársins og heildarvinnustundum um 2,8% þó spárnar gerðu ráð fyrir aðeins 0,7% aukningu. Hefur atvinnuleysisstigið lækkað einna mest hér á landi miðað við OECD-ríkin.
Verðbólguhorfur eru verri en í síðustu spá Seðlabankans og verðbólguhorfur óvissar. Þórarinn telur mikilvægt að viðræður um kjarasamninga taki mið af verðbólgumarkmiðum og að ekki verði miklar hækkanir þegar nýir kjarasamningar verði undirritaðir.