Félag atvinnurekenda stóð fyrir virkilega áhugaverðum félagsfundi í dag. Yfirskrift fundarins var „Árið 2013 – hvað segja félagsmenn?“. Fjórir valinkunnir einstaklingar úr mismunandi geirum innan félagsins héldu erindi þar sem þeir kynntu starfsemi fyrirtækis síns og þróun á markaði síðustu ár. Jafnframt töluðu þau um framtíðarhorfur innan geirans, hvar tækifærin liggja og hvað væri mest spennandi á komandi mánuðum. Meðal mælenda var Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma og formaður Félags atvinnurekenda, og kom hún fram fyrir hönd heilbrigðisvörugeirans. Talaði hún meðal annars um stöðu Landsspítalans og vöntun á endurnýjun á tækjum og endurbótum á húsnæði. Hjalti Jónsson, framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar og formaður SÍA talaði um auglýsingageirann og markaðsmál. Hæg batamerki hafa verið á markaði frá hruni og eru gríðarleg tækifæri vegna mikilla tæknibreytinga undanfarinna ára með tilkomu samfélagsmiðla. Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar, flutti erindi fyrir hönd dagvörumarkaðarins. Hann lýsti þeim erfiðleikum sem fylgja sveiflum í gengisþróuninni og ræddi meðal annars um fyrirhugaðar breytingar á sykurskatti og áhrif þess á verð dagvörunnar. Að lokum tók Gunnar Guðjónsson, forstjóri Opinna Kerfa, til máls og fjallaði um upplýsingatæknimarkaðinn. Hann benti á að markaðurinn hafi verið mjög breytilegur undanfarin ár enda hefur verið rosalega hröð tækniþróun. Gunnar talaði um að á Íslandi lægju mörg tækifæri til að bjóða upp á gagnaver þar sem kostnaðurinn við slíkt er umtalsvert lægri en hjá öðrum þjóðum.
Þéttsetið var í salnum og gengu gestir fundarins ánægðir út í daginn eftir áhugaverð erindi.