Opinn félagsfundur var haldinn í húsakynnum Félags atvinnurekenda í dag. Yfirskrift fundarins var „Óraunhæfar kröfur til minni og meðalstórra fyrirtækja?“ en fjallað var annars vegar um um ársreikningagerð og endurskoðun og hins vegar ársreikningaskil.
Stefán Svavarsson, prófessor við Háskólann á Bifröst, hélt erindi sem fjallaði um endurskoðun og reikningsskil almennt og hvort löggjöf um endurskoðun taki mið af aðstæðum óskráðra fyrirtækja. Hann telur löggjöfina ófullkomna og vill fá að sjá aðskildar reglur um endurskoðun og reikningsskil fyrir stór fyrirtæki og lítil fyrirtæki.
Benedikt Eyjólfsson, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Bílabúð Benna hélt erindi um ársreikningaskil á fundinum og gerði grein fyrir sinni upplifun og skoðun á málinu. Hann lagði áherslu á að þörf fyrir birtingu ársreikninga væri ofmetin hvað smærri fyrirtæki varðaði og talaði einnig um að þau stærðarmörk sem notuð eru á Íslandi séu ekki í samræmi við Evrópureglur. Því væri í raun verið að gera miklu meiri kröfur á Íslandi en annars staðar.
Að loknum erindum Stefáns og Benedikts var opnað fyrir umræður í salnum þar sem kom glögglega í ljós að skoðanir fundargesta voru misjafnar. Fundurinn var vel sóttur enda um áhugavert málefni að ræða sem Félag atvinnurekenda mun fylgja eftir með hagsmuni félagsmanna sinna að leiðarljósi. Það er gríðarlega mikilvægt að kröfur til fyrirtækja séu skýrar og þjóni eðlilegum tilgangi um að greiða fyrir viðskiptum og auka öryggi en séu um leið ekki til þess fallnar að skapa óþarfa byrði á minni fyrirtæki, hvað varðar kostnað eða opinbera birtingu upplýsinga.
Erindi Benedikts Eyjólfssonar má sjá hér
Erindi Stefáns Svavarssonar má sjá hér