Fleiri telja ríkið ofrukka eftirlitsgjöld

01.02.2019

Mikill meirihluti félagsmanna í Félagi atvinnurekenda, eða 70%, telur að eftirlitsgjöld ríkisins séu ekki í samræmi við raunkostnað við eftirlitið og er hlutfall félagsmanna sem telja ríkið ofrukka talsvert hærra en undanfarin ár. Þetta kemur fram í nýrri könnun FA meðal félagsmanna.

Spurt var í könnuninni hversu sammála eða ósammála fyrirtækin væru fullyrðingunni „Eftirlitsgjöld hins opinbera eru í samræmi við raunkostnað við eftirlitið.“ Aðeins 10% sögðust sammála eða mjög sammála, en 70% segjast ósammála eða mjög ósammála. Í könnunum FA undanfarin ár hefur þetta hlutfall yfirleitt verið á milli 50 og 60%.

Enn engir kostnaðarútreikningar frá heilbrigðisráðuneyti
FA hefur mjög beitt sér fyrir því undanfarin ár að eftirlitsgjöld ríkisins séu reist á traustum grunni; eigi sér trygga lagastoð, gjaldskrár séu skýrar og aðgengilegar, gjaldtakan byggð á raunverulegum kostnaði og hækkanir gjalda rökstuddar með fullnægjandi hætti. Þessi barátta hefur ekki alltaf borið árangur; þess er skemmst að minnast að heilbrigðisráðuneytið hefur enn ekki birt kostnaðarútreikninga að baki 75.000 króna gjaldi sem lagt var á tilkynningar til Neytendastofu um markaðssetningu rafrettna eða tengdra vara með reglugerð í byrjun september á síðasta ári.

Eftirlitsgjaldaskýrslu fylgt eftir
FA birti á árinu 2017 ýtarlega skýrslu um eftirlitsgjöld ríkisins, þar sem fram kom að víða væri pottur brotinn við útreikning og álagningu gjaldanna, sundurliðun kostnaðar og birtingu gjaldskrár. Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármálaráðherra, fagnaði skýrslunni og setti í gagn vinnu í fjármála- og efnahagsráðuneytinu við að skoða og fylgja eftir þeim úrbótatillögum, sem þar voru gerðar. Lítið hefur heyrst af þeirri vinnu undanfarin misseri og mun FA ganga á eftir því við núverandi fjármálaráðherra að málinu verði fylgt eftir.

Könnun FA var gerð dagana 24.-31. janúar. Svör bárust frá 73 félagsmönnum af 161 með beina félagsaðild, en það er 45% svörun.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning