Flokkarnir ekki sammála um samkeppni í sjávarútvegi

19.10.2017
Frambjóðendur í pallborði.

Flokkarnir vilja ganga mjög mislangt í að hrinda í framkvæmd tilmælum Samkeppniseftirlitsins frá 2012 til að draga úr samkeppnishömlum í sjávarútvegi. Þetta kom fram í umræðum á fundi FA og Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) með frambjóðendum fyrir þingkosningarnar í morgun.

Í upphafi fundar fór Ólafur Arnarson, starfsmaður stjórnar SFÚ, yfir stöðu sjálfstæðra fiskvinnslufyrirtækja, sem hefur farið versnandi. Meðal annars hefur hlutfall afla sem fer á fiskmarkað hríðfallið. Ólafur sagði að fiskmarkaðirnir gegndu lykilhlutverki við að skapa verðmæti úr sjávarfangi af því að þeir gerðu fiskvinnslufyrirtækjum kleift að auka sérhæfingu.

Tilmælum Samkeppniseftirlits ekki hrint í framkvæmd
Ólafur rifjaði ennfremur upp tilmæli Samkeppniseftirlitsins frá 2012 til atvinnuvegaráðherra, sem hugsuð voru til að draga úr samkeppnishömlum og tvöfaldri verðlagningu í sjávarútvegi. Meginatriðin eru eftirfarandi:

  1. Setja milliverðlagningarreglur þannig að innri viðskipti fiskvinnslu og útgerðar innan sama fyrirtækis væru eins og um óskylda aðila væri að ræða
  2. Koma í veg fyrir að sjálfstæðu útgerðirnar greiði hlutfallslega hærri hafnargjöld en samþættu útgerðirnar, til dæmis með því að miða við landað magn eða opinbert viðmiðunarverð
  3. Útgerðarmenn komi ekki með beinum hætti að ákvörðun um verðlagsstofuverð
  4. Reglur um kvótaframsal verði rýmkaðar þannig að sjálfstæðar fiskvinnslur geti átt veiðiheimildir og séu þannig í betri aðstöðu að ná sér í hráefni

Ólafur gat þess að frá því að tilmælin voru gefin út, hefðu setið fjórir sjávarútvegsráðherrar og enginn þeirra lyft litla fingri til að hrinda þeim í framkvæmd.

Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsóknarflokki, og Teitur Björn Einarsson, Sjálfstæðisflokki.

Til hvers voru girðingar settar upp?
Á fundinum var spurt hvort flokkarnir væru reiðubúnir til að beita sér fyrir því að þessum tilmælum yrði hrint í framkvæmd. Fram kom að settar hefðu verið almennar reglur um milliverðlagningu, en að í sjávarútvegsráðherratíð Sigurðar Inga Jóhannssonar hefði jafnframt verið unnið að frumvarpi sem tæki sérstaklega á milliverðlagningu í sjávarútveginum.

Teitur Björn Einarsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, sagði að sjávarútvegurinn væri mjög samkeppnisfær á alþjóðavettvangi. Engar sérreglur undanþægju greinina samkeppnislögum. Hins vegar væru aðgangshindranir að auðlindinni nauðsynlegar og gerðu sjávarútveginn eðlisólíkan öðrum greinum. Settar hefðu verið upp girðingar í regluverkinu, m.a. um að enginn mætti eiga meira en 10% aflaheimilda. Aðrar greinar byggju ekki við slíkar takmarkanir. Milliverðlagningarreglur tækju á veigamesta þættinum í tilmælunum. „Þegar menn fara að rífa niður girðingar bið ég um að menn íhugi, áður en það er gert, af hverju girðingar voru settar upp,“ sagði Teitur.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist telja eðlilegt að hafnarsjóðir vildu fá hærri tekjur. Eðlilegt væri að skoða hvort skerpa þyrfti á milliverðlagningarreglunum. Hann sagði að það yrði að viðurkennast, í samhengi við umræðu um að fiskvinnslur gætu átt kvóta, að allt frá 1983 hefði gengið einna verst að tryggja byggðaþátt fiskveiðistjórnunarinnar. Varast ætti kollsteypur í kerfinu nema að vel íhuguðu máli og þess vegna hefði ekki verið gerð breyting á því að fiskvinnslur gætu ekki átt kvóta.

Gunnar Bragi Sveinsson, frambjóðandi Miðflokksins, sagði að setning milliverðlagningarreglna hefði verið ákveðinn sigur fyrir þá sem vildu gegnsærri reglur um verðlagningu, en fara mætti yfir hvort ætti að skerpa á þeim. Gunnar sagðist telja að alltaf yrðu einhver átök um sjávarútveginn. Hann væri ekki viss um að þau minnkuðu með því að leyfa fiskvinnslum að eiga kvóta. Innheimta hafnargjalda sneri að sveitarfélögunum og þau ættu að berjast fyrir að fá sem mest fyrir sinn snúð.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir frá Vinstri grænum, Eva H. Baldursdóttir frá Samfylkingu og Páll Rafnar Þorsteinsson frá Viðreisn.

Stjórnvöld skyldug að bregðast við
G. Valdimar Valdemarsson, frambjóðandi Bjartrar framtíðar, sagði sinn flokk þeirrar skoðunar að þegar Samkeppniseftirlitið gæfi út álit af þessu tagi bæri stjórnvöldum að bregðast við og gera úrbætur. „Mér finnst það skylda stjórnmálanna að setjast niður með Samkeppniseftirlitinu og semja reglur sem tryggja fulla samkeppni,“ sagði Valdimar.

Í sama streng tók Eva H. Baldursdóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar. Stjórnvöldum bæri skylda til að bregðast við tilmælum Samkeppniseftirlitsins. Skoða þyrfti hvort milliverðlagningarreglur hefðu skilað sínu. „Það er lykilatriði og við segjum mjög skýrt að þegar kemur að sjávarútvegi eiga almannahagsmunir að ráða för en ekki sérhagsmunir,“ sagði Eva. Hún sagðist ekki skilja í því að menn forðuðust að ganga lengra í átt til markaðslausna í sjávarútvegi og verðu íhaldssamt kerfi.

Gunnar Ingiberg, frambjóðandi Pírata var sama sinnis. Fylgja ætti Samkeppniseftirlitinu í einu og öllu í þessu efni.

Páll Rafnar Þorsteinsson, frambjóðandi Viðreisnar, sagði að heilbrigð samkeppni ætti að vera regla en ekki undantekning og samkeppnisreglur ætti að halda í heiðri. Sönnunarbyrðin hlyti að hvíla á þeim sem mæltu fyrir undantekningum. Eðlilegt væri að stjórnvöld tækju þessi tilmæli til vandlegrar og jákvæðrar skoðunar. Hvað varðaði ábendinguna um auknar framsalsheimildir væri það mál snúið. Ef á annað borð ætti að víkka framsalsheimildir hlyti sú spurning að vakna hvort takmarka ætti það við útgerð og vinnslu; mættu þá ekki bara allir eiga aflaheimildir? Áður en slík ákvörðun yrði tekin hlytu stjórnvöld þó að rannsaka rækilega hvaða efnahagslegu áhrif slíkt kerfi hefði.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, frambjóðandi Vinstri grænna, sagðist sammála því að skoða yrði betur hvort milliverðlagningarreglur hefðu skilað sínu. Hvað varðaði aukið framsal á veiðiheimildum væri þar komið inn í kjarnabreytingar á lögum um stjórn fiskveiða. „Það þarfnast miklu meiri umræðu og undirbúnings og þess vegna leyfi ég mér að halda fram að ekki hafi verið brugðist strax við tilmælum Samkeppniseftirlitsins,“ sagði Rósa Björk. Hún sagði VG ekki vilja að grundvöllur skapaðist fyrir fákeppni í sjávarútvegi og öll viðskipti ættu að vera gegnsæ og uppi á borðum.

Jón Steinn Elíasson, formaður SFÚ, og Eva H. Baldursdóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar, ræða saman eftir fund.

Stjórnarskrárákvæði forsenda sáttar
Fundarmenn lögðu ýmsar spurningar fyrir frambjóðendur og urðu líflegar umræður á fundinum. Jón Steinn Elíasson, formaður SFÚ, spurði m.a. hvort flokkarnir væru reiðubúnir að gera sanngjarnar breytingar í sjávarútvegi. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í svari við þeirri spurningu að sátt yrði að ríkja í samfélaginu um sjávarútveginn. „Ég tel að það sé algjörlega orðin forsenda til þess að geta talað um sjávarútveg við allt og alla á Íslandi – og ég vildi gjarnan geta gert það betur og málefnalegar en raun ber vitni – að inn í þessa blessaða stjórnarskrá okkar komi skýrt auðlindaákvæði um eignarhald. Ég held að það sé algjör forsenda fyrir því að við komumst áfra. Ég hef ekki gert mér grein fyrir því fyrr bara síðustu árum hversu mikilvægt þetta er fyrir tilfinninguna. Ég veit að þetta hefur ekki áhrif á reksturinn ykkar en þetta mun hafa áhrif á það hvernig við sem ein þjóð upplifum raunverulegt eignarhald á auðlindinni.“

Fundurinn var í beinni útsendingu á Facebook-síðu FA og má sjá upptökuna í spilaranum hér að neðan.

 

 

Glærur Ólafs Arnarsonar

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning