Fólkið sem ber ábyrgð á þriggja milljarða skattahækkun

26.07.2022
Það er undir borgarstjórn Reykjavíkur komið hvort skattar á fyrirtæki í borginni hækka um 1,5 milljarða á næsta ári vegna hækkunar fasteignamats.

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptamogganum 21. júlí 2022.

Óhætt er að segja að mörgum atvinnurekendum hafi brugðið í brún í lok maí, þegar fasteignamat fyrir árið 2023 var gert opinbert. Fasteignamat atvinnuhúsnæðis á landinu öllu hækkar um 10,2% frá mati ársins 2022. Samkvæmt útreikningum Félags atvinnurekenda þýðir það um þriggja milljarða króna skattahækkun á fyrirtækin í landinu.

Frá því að núverandi tekjumatsaðferð var tekin upp við útreikning fasteignamats atvinnuhúsnæðis fyrir árið 2015 og fram til síðasta árs hækkaði álagður fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði á landinu úr tæplega 17 milljörðum króna á ári í um 28,8 milljarða, eða um tæplega 70%. Það gerist þrátt fyrir breytingar sumra sveitarfélaga á álagningarprósentu til að bregðast við hækkandi fasteignamati.

Öllum ætti að vera ljóst hversu fráleit þessi þróun er. Á sama tíma hækkaði verðlag í landinu þannig um tæplega 17%. Fasteignaskatturinn er vondur skattur, sem leggst á eigið fé fyrirtækja alveg óháð því hvort rekstrarafkoma þeirra – og þar með getan til að standa undir hækkandi skattgreiðslum – hefur tekið breytingum.

Félag atvinnurekenda sendi öllum sveitarfélögum í landinu áskorun um að lækka álagningarprósentu fasteignaskattsins til að bregðast við hækkun matsins. Þar sagði meðal annars:

„Að mati FA verður ekki við þessa þróun unað. Mörg fyrirtæki eru að rétta úr kútnum eftir kórónuveirukreppuna. Gífurlegar hækkanir á aðföngum gera fjölda fyrirtækja erfitt fyrir og þau þurfa að leita allra leiða til að velta þeim ekki út í verðlag. Engu að síður er verðbólgan sú hæsta í mörg ár. Framundan eru afar erfiðar kjaraviðræður. Þriggja milljarða skattahækkun sveitarfélaganna er ekki það sem atvinnulífið þarf á að halda við þessar aðstæður. 

Stjórn FA telur að hér verði hvert og eitt sveitarfélag að sýna ábyrgð og gera breytingar á sinni álagningarprósentu þannig að hækkanir á fasteignasköttum skaði ekki atvinnulífið í landinu meira en orðið er. Sveitarstjórnarmenn geta ekki firrt sig ábyrgð og látið „sjálfkrafa“ hækkanir á sköttum renna umræðulaust í sjóði sveitarfélaganna.“

Þetta var ekki fyrsta áskorunin af þessu tagi sem FA hefur sent á sveitarfélögin að undanförnu, en viðbrögðin hafa þó verið meiri en undanfarin ár. Þannig hafa sveitarfélög á borð við Kópavog, Mosfellsbæ og Hveragerði brugðizt afdráttarlaust við og lýst því yfir að þau muni lækka álagningarprósentuna til þess að álögur á fyrirtækin fari ekki úr böndunum.

Þau viðbrögð eru fagnaðarefni, en um leið er afstaða stærsta sveitarfélagsins – eða eigum við að segja afstöðuleysi – mikil vonbrigði. Reykjavíkurborg innheimtir um helming allra fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði í landinu. Um helmingur þeirrar þriggja milljarða króna skattahækkunar sem stefnir í að óbreyttu á næsta ári er þannig í Reykjavík; þar munu fasteignaskattar af atvinnuhúsnæði hækka um tæplega 1,5 milljarða króna án aðgerða. Reykjavíkurborg hefur dregið lappirnar í lækkun skatthlutfallsins í samanburði við nágrannasveitarfélögin og innheimtir nú hæsta fasteignaskattinn á atvinnuhúsnæði af öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, 1,6% af fasteignamati samanborið við t.d. 1,4% í Hafnarfirði.

Í kosningabaráttunni fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí töldu tveir af flokkunum, sem nú mynda nýjan meirihluta í Reykjavíkurborg, Framsóknarflokkurinn og Viðreisn, að of langt hefði verið gengið í hækkunum fasteignaskatta og ástæða væri til að lækka skattprósentuna. Í samstarfssáttmála meirihlutans kemur hins vegar fram að lækka eigi skattana „í lok kjörtímabilsins“. Það er eftir þrjú ár og gerist augljóslega of seint fyrir fyrirtæki, sem glíma nú við miklar hækkanir á launakostnaði og aðföngum.

Sveitarstjórnarmenn virðast stundum vona að hækkun fasteignamatsins, sem er yfirleitt tilkynnt um mánaðamót maí og júní, sé gleymd við afgreiðslu fjárhagsáætlana í árslok. Það er ekki sízt hlutverk þeirra sem borga fasteignaskatta að halda þeim við efnið og minna þá á að ábyrgðin er þeirra. Ef þeir gera ekkert, er milljarða króna skattahækkun á fólk og fyrirtæki á þeirra ábyrgð.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning