Fórum niður með lyftunni í lækkun vaxta, tökum stigann vonandi rólega upp

01.09.2021

Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri ræddi efnahagshorfur á félagsfundi Félags atvinnurekenda í morgun. Hún sagði að vaxtahækkunarferli bankans væri hafið og myndi halda áfram ef „ekkert mjög ófyrirséð“ gerðist, en tók fram að óvissan væri mikil, bæði um hegðun kórónuveirunnar og þær sóttvarnaraðgerðir sem grípa getur þurft til. „Við fórum niður með lyftunni í fyrra en vonumst til að geta tekið stigann rólega núna,“ sagði hún.

Mörg fyrirtæki vantar starfsfólk
Rannveig sagði að krafturinn í hagkerfinu væri meiri en bankinn hefði spáð og líka meiri kraftur í vinnumarkaðnum. Þannig færi atvinnuleysi minnkandi nokkuð hraðar en bankinn hefði búist við, lausum störfum fjölgaði mikið og þeim fyrirtækjum færi hratt fjölgandi sem teldu sig vanta starfsfólk.

Verðbólga er enn vel yfir markmiði Seðlabankans og sagði Rannveig áhrif sterkara gengis annars vegar og launahækkana og hækkana á húsnæðisverði hins vegar vegast á. Húsnæðisliðurinn útskýrir nú þriðjung verðbólgunnar. Rannveig sagði að bankinn gerði nú ráð fyrir heldur hægari hjöðnun verðbólgu en áður var spáð, en þar spiluðu meðal annars inn í hækkanir á alþjóðlegu vöruverði vegna þess að teygst hefði á faraldrinum.

Launahækkanir taki mið af getu fyrirtækjanna
Framkvæmdastjóri FA ræddi áhyggjur félagsmanna af launahækkunum, sem m.a. þrýsta á verðbólgu, og að hið opinbera virtist hafa forystu um hækkanir á launakostnaði. Rannveig sagði að skoða yrði tölur um launahækkanir mismunandi hópa út frá réttum forsendum. Þegar samið væri um krónutöluhækkanir, væri ekki óeðlilegt að starfsfólk hjá hinu opinbera, sem væri margt á lágum launum, hækkaði meira í prósentum talið. Það væri ekkert nýtt. Þá væru hópar starfa hjá hinu opinbera þar sem væri mikill skortur á starfsfólki og það hefði haft áhrif á launaþróunina. Sambærilegt launaskrið virtist ekki fyrir hendi á almenna markaðnum. „Vissulega væri betra að það væri tekið meira mið af þjóðhagslegum forsendum og getu fyrirtækja til að greiða laun þegar verið er að semja um laun, en umræðan verður líka að vera út frá réttum tölum og réttum forsendum,“ sagði varaseðlabankastjóri.

Glærur Rannveigar

Nýjar fréttir

Innskráning