Frelsi á fjórum hjólum

21.11.2014

Grein birt í Morgunblaðinu 21. nóvember 2014

Eftir Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda

Vilhjálmur Árnason, þingmaður og fyrsti flutningsmaður frumvarps um smásölu áfengis í almennum verzlunum, vék orðum að afstöðu Félags atvinnurekenda (FA) til frumvarpsins í Morgunblaðinu þriðjudaginn 18. nóvember.

FA hefur lagt áherzlu á mun víðtækari breytingar á áfengislöggjöfinni en gert er ráð fyrir í frumvarpinu og meðal annars hvatt þingmenn til þess að afnema löngu úrelt og götótt bann við áfengisauglýsingum, sem kemur harðast niður á innlendum áfengisframleiðendum. Það sama hafa fleiri hagsmunasamtök í atvinnulífinu gert.

Vilhjálmur segir í blaðinu að smásala áfengis og auglýsingabannið séu „alls óskyld“ mál. Hann segist telja að FA sé að reyna að stöðva frumvarpið með „vafasömum“ hætti og andstaða félagsins sé „ógeðfelld“. „Þeir eru að nota núverandi auglýsingabann til að stoppa málið,“ segir Vilhjálmur.

Ólafur Stephensen
Ólafur Stephensen

Höfum það fyrst á hreinu að Félag atvinnurekenda styður frelsi og virka samkeppni í viðskiptum með áfengi, rétt eins og aðrar vörur. Hins vegar hefur FA bent á að nálgunin í frumvarpi Vilhjálms og meðflutningsmanna hans sé of þröng, meðal annars af því að það tekur ekki til auglýsingabannsins.

Hvert er samhengið?

Það er alrangt að ekkert samhengi sé á milli smásöluverzlunar með áfengi og banns við áfengisauglýsingum. Með frumvarpi Vilhjálms er lagt til að færa smásölu áfengis úr einokunarumhverfi í fákeppnisumhverfi matvörumarkaðarins. Gera má ráð fyrir að fáir stórir aðilar á matvörumarkaðnum muni ráða miklu um hvaða vörur seljast. Framleiðendur og innflytjendur nytu þá eðlilega ekki lengur þess jafnræðis sem ÁTVR hefur verið skylduð til að viðhafa gagnvart birgjum, en vegna auglýsingabannsins ættu þeir hins vegar enga möguleika á að kynna vörur sínar sjálfstætt fyrir neytendum. Þetta kæmi sérstaklega hart niður á smærri framleiðendum, sem reyna að koma nýrri vöru á markað.

Af hverju þingmaðurinn kallar það vafasamt og ógeðfellt af Félagi atvinnurekenda að benda á þetta er erfitt að útskýra. Ætti hann ekki sem talsmaður frjálsra viðskipta að vera sammála því að leggja sem minnstar hömlur á umhverfi viðskipta með áfengi? FA hefur sent allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis  vel útfærðar tillögur sínar um afnám auglýsingabannsins og drög að ströngum siðareglum um markaðssetningu áfengis, sem aðildarfyrirtæki FA eru reiðubúin að fylgja, verði auglýsingabannið afnumið.

Misskilningur um áfengisgjald

Það hentar Vilhjálmi að reyna að gera grýlu úr „stóru framleiðendunum og heildsölunum“ sem vilji ekki styðja frumvarp hans óbreytt. Það er oft klókt að gera þeim sem ekki eru manni sammála upp annarleg sjónarmið. Sannleikurinn er hins vegar sá að smærri fyrirtæki í innflutningi og framleiðslu áfengis hafa meiri áhyggjur af ágöllum frumvarpsins en þau stærri.

Ein helzta ástæðan fyrir því er að það fjallar ekki um áfengisauglýsingar. Önnur ástæða er sú að flutningsmenn þess virðast hafa misskilið núverandi löggjöf um innheimtu áfengisgjalds og halda að það sé smásalan sem standi skil á því til ríkisins. Svo er ekki; það eru birgjarnir, innflytjendur og framleiðendur, sem greiða áfengisgjaldið í ríkissjóð en núverandi smásali, ÁTVR, greiðir þeim skilvíslega nokkrum dögum síðar. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að breyta því að birgjarnir standi skil á áfengisgjaldi. Ef heildsölum og/eða framleiðendum er áfram gert að standa skil á áfengisgjaldinu við afhendingu eða tollafgreiðslu vörunnar en þeir þurfa síðan í nýju markaðsumhverfi að veita smásöluverzlunum gjaldfrest upp á allt að tvo mánuði, eins og algengt er, hefur það gífurlega neikvæð áhrif á sjóðstreymi og rekstrarhæfi, ekki sízt smærri fyrirtækja, enda er áfengisgjald á Íslandi gríðarlega hátt og getur numið upp undir 80% af verði vörunnar.

Þetta er eðlilega mikið áhyggjuefni, sér í lagi fyrir smærri aðila á markaði. Félag atvinnurekenda leggur því þunga áherzlu á að það verði smásalan sem skili áfengisgjaldinu til ríkissjóðs, verði ákveðið að afnema einkasölu ríkisins á áfengi.

Það er ögn torskilið af hverju það fer svona fyrir brjóstið á flutningsmönnum áðurnefnds frumvarps þegar bent er á að það gangi ekki nógu langt í frelsisátt og settar fram vel rökstuddar og málefnalegar tillögur um hvernig megi skoða málið heildstætt, tryggja sem frjálsast viðskiptaumhverfi áfengissölu og bæta úr stórum og augljósum göllum á frumvarpinu. Stuðningsmenn viðskiptafrelsisins hljóta að vilja að þegar frelsisbíllinn leggur af stað sé hann á öllum fjórum hjólum, en ekki bara einu eða tveimur.

Grein Ólafs Stephensen í Morgunblaðinu

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning