Frelsi í sölu og auglýsingum og breytt innheimta áfengisgjalds fari saman

17.03.2017

Félag atvinnurekenda fagnar því að flutningsmenn áfengisfrumvarpsins á yfirstandandi þingi hafi tekið mark á þremur meginathugasemdum sem félagið setti fram vegna fyrri frumvarpa. Félagið telur að breytingar á frumvarpinu séu til verulegra bóta, en bæta þurfi við það ákvæðum um breytt fyrirkomulag á innheimtu áfengisgjalda. Ella sé hætta á að áfengisframleiðendum og -innflytjendum sé valdið verulegu tjóni að óþörfu.

FA fagnar eftirtöldum þremur breytingum:

Í fyrsta lagi er nú gert ráð fyrir að samhliða því að smásala áfengis verði gefin frjáls verði bann við áfengisauglýsingum afnumið. Auglýsingar verði leyfðar með skýrum takmörkunum.

Í öðru lagi er nú horfið frá þeirri órökstuddu mismunun milli sterks og létts áfengis, sem fyrri frumvörp gerðu ráð fyrir.

Í þriðja lagi eru horfnar úr greinargerð frumvarpsins rangfærslur um að áfengisgjald sé innheimt á smásölustigi og þess í stað komin málefnaleg umfjöllun um þau vandkvæði, sem gætu hlotist af því að gefa smásölu frjálsa án þess að breyta um leið fyrirkomulagi innheimtu áfengisgjalds. FA fagnar þessu, en bendir um leið á að í frumvarpið vantar enn ákvæði sem taka á þessum vanda.

„FA undirstrikar mikilvægi þess að breytingar í frjálsræðisátt nái bæði til sölu og markaðssetningar áfengis. Félagið leggur sem fyrr ríka áherzlu á að frjálsri smásölu á áfengi fylgi annars vegar afnám auglýsingabannsins og hins vegar breytt innheimta áfengisgjalds,“ segir í umsögn félagsins.

Siðareglur um auglýsingar verði kláraðar
FA tekur undir þau sjónarmið sem sett eru fram í greinargerð frumvarpsins um nauðsyn þess að afnema bann við áfengisauglýsingum um leið og smásalan er gefin frjáls. Félagið hefur áður bent á að yrði fyrirkomulagi smásölu breytt án þess að auglýsingabannið yrði afnumið um leið, hefði það ýmis neikvæð áhrif á viðskiptaumhverfið á markaði fyrir áfenga drykki. Í fylgiskjali með umsögn FA eru drög að siðareglum um áfengisauglýsingar, sem samin hafa verið á vegum félagsins. „Verði frumvarp þetta að lögum mun FA ljúka vinnu við slíkar siðareglur,“ segir í umsögninni.

Nauðsynlegt að breyta innheimtu áfengisgjalds
FA ítrekar að verði smásala gefin frjáls, sé nauðsynlegt að breyta fyrirkomulagi innheimtu áfengisgjalds. Að óbreyttum lögum um áfengisgjald muni sú breyting, sem í frumvarpinu felst, annars vegar hafa mjög neikvæð áhrif á sjóðstreymi og rekstrarhæfi áfengisframleiðenda og -innflytjenda og hins vegar hafa neikvæðar afleiðingar fyrir samkeppni, bæði í heildsölu og smásölu. „Til að verja sig fyrir rekstraráhættu er líklegt að birgjar myndu krefja minni smásöluverzlanir um staðgreiðslu. Það hækkar svo aftur inngangsþröskuldinn á smásölumarkaði. Ennfremur liggur í augum uppi að stærri framleiðendur og heildsalar eru betur í stakk búnir en þeir minni að taka á sig þann fjármagnskostnað, versnandi sjóðstreymi og rekstraráhættu sem myndi fylgja breytingunni,“ segir í umsögn félagsins.

Félag atvinnurekenda telur af þessum sökum afar mikilvægt að bætt verði við frumvarpið ákvæðum, sem breyta innheimtu áfengisgjaldsins þannig áfengisbirgjum verði ekki að þarflausu valdið tjóni með samþykkt þess. Þar koma tveir kostir til greina:

  1. Smásölustigið sjái um að innheimta áfengisgjaldið og standa skil á því til ríkissjóðs. Smásölum er að sjálfsögðu treystandi til þess rétt eins og að standa skil á virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum.
  2. Innheimtu áfengisgjaldsins verði breytt þannig að hún verði líkari innheimtu virðisaukaskatts. Uppgjörstímabil verði það sama, innheimtuskilyrði og viðurlög verði svipuð og birgjum tryggð endurgreiðsla áfengisgjalds vegna sannanlega tapaðra krafna, líkt og gerist með virðisaukaskatt.

FA er reiðubúið að vinna nánari tillögur um útfærslu þessara kosta og leggja fyrir allsherjar- og menntamálanefnd.

Gefinn verði lengri aðlögunartími
FA gagnrýnir að ákvæði frumvarpsins eigi að taka gildi strax um næstu áramót og telur lengri aðlögunartíma nauðsynlegan. „Talsvert miklar breytingar munu þurfa að eiga sér stað bæði hjá smásölum og heildsölum og framleiðendum áfengis til að mæta þeim breytingum sem kveðið er á um og má þar nefna innréttingar í verzlunum, viðskiptakerfi og vinnu við siðareglur og útfærslu þeirra vegna áfengisauglýsinga. Þá má gera ráð fyrir að svigrúm þurfi vegna stefnumótunar sveitarfélaga varðandi þau skilyrði sem þau vilja setja vegna áfengissölu o.s.frv. Æskilegt væri að gefa að lágmarki árs aðlögunartíma frá gildistöku frumvarpsins,“ segir í umsögninni.

Þrjár breytingar haldist í hendur
„Félag atvinnurekenda telur þetta mál hafa tekið miklum og jákvæðum breytingum frá síðustu tveimur þingum. Félagið telur þó að óforsvaranlegt væri að Alþingi samþykkti frumvarpið án þess að bæta við það ákvæðum um breytta innheimtu áfengisgjalds. Að sama skapi telur FA afar mikilvægt að tveir meginþættir frumvarpsins fari saman, afnám einkaréttar ríkisins á áfengissölu og afnám auglýsingabanns. Félagið hefur fært málefnaleg rök fyrir því að farsælast sé að þetta þrennt haldist í hendur og getur eingöngu að því gefnu mælt með því að frumvarpið verði að lögum,“ segir í umsögn FA.

Umsögn FA um frumvarpið

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning