Frelsismegin í 90 ár

28.12.2018

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Markaðnum 28. desember 2018.

Á Íslandi, eins og í svo mörgum öðrum vestrænum ríkjum, er vaxandi togstreita á milli annars vegar afla sem vilja opið samfélag og hagkerfi með sem minnstum hömlum á samskipti og viðskipti á milli ríkja og hins vegar þeirra sem hafa vaxandi efasemdir um ágæti vestræns samstarfs, hnattvæðingar og fríverzlunar. Átök á milli þeirra sem vilja sem frjálsastan markað og hagstæðast starfsumhverfi fyrirtækja í þágu verðmætasköpunar annars vegar og hins vegar þeirra sem telja þungt regluverk, boð og bönn vera í þágu jákvæðrar samfélagsþróunar liggja ekki eftir nákvæmlega sömu línum, en þó oft svipuðum.

Félag atvinnurekenda hefur skipað sér frelsismegin í báðum tilvikum. Félagið, sem hét í upphafi Félag íslenzkra stórkaupmanna, hefur allt frá stofnun 21. maí 1928 beitt sér fyrir opnara Íslandi, frjálsari viðskiptum og léttara regluverki í þágu öflugs atvinnulífs.

Einföldun regluverks
Á 90 ára afmælisárinu báru baráttumál félagsins þessu vitni. Við héldum áfram að beita okkur fyrir einföldun regluverks fyrir fyrirtækin og fögnuðum því að mál sem við höfum lengi barizt fyrir náðu fram að ganga. Eitt slíkt mikilvægt skref er upptaka samkeppnismats í samvinnu við OECD. Það gengur út á að skoða bæði ríkjandi regluverk og nýjar reglur fyrir atvinnulífið, til að meta áhrif þeirra á frjálsa samkeppni. Til að byrja með nær matið til byggingariðnaðarins og ferðaþjónustunnar. Við teljum fulla ástæðu til að það taki sem fyrst til fleiri atvinnugreina sem heyra undir atvinnuvegaráðuneytið, ekki sízt sjávarútvegs og landbúnaðar, þar sem víðtækar samkeppnishömlur eru í gildi.

Sanngjarnari fasteignaskattar
Annað af stóru málum félagsins var lækkun fasteignaskatta sveitarfélaganna á atvinnuhúsnæði. Sú skattheimta er komin í mikið óefni; skattbyrði fyrirtækja hefur þyngzt um tugi prósenta á fáum árum vegna gífurlegra hækkana fasteignamats, sem oftast eru ekki í neinu samhengi við afkomu eða greiðslugetu fyrirtækjanna. Málflutningur okkar náði í gegn hjá ýmsum stærri sveitarfélögum, sem lækkuðu álagningarprósentur – með þeirri stóru undantekningu að Reykjavíkurborg sýndi málinu engan áhuga og innheimtir enn hæstu lögleyfðu fasteignagjöld á nokkuð hæpnum forsendum. Á nýju ári þurfa atvinnulíf, sveitarfélög og ríkisvaldið að hefja vinnu við að koma þessari gjaldheimtu í sanngjarnara og skynsamlegra horf.

Að koma böndum á ohf-in
Undir lok ársins var barátta FA fyrir óháðri úttekt á Íslandspósti áberandi. Ríkisfyrirtækið, sem hefur farið í nýjan rekstur í samkeppni við ótal einkafyrirtæki á síðustu árum, er komið að fótum fram og þarf nú milljarða meðgjöf frá skattgreiðendum. Úttekt á þeim ákvörðunum sem leiddu Póstinn í þessa ömurlegu stöðu er nauðsynleg, bæði til að tryggja sanngjarna samkeppni á póstmarkaði í framhaldinu og til að hægt sé að forðast að sambærileg staða komi upp hjá öðrum ohf-félögum, sem hafa fengið að ganga stjórnlaus á samkeppnismarkaði.

Stöndum vörð um EES
Síðast en ekki sízt hefur Félag atvinnurekenda haldið áfram sinni 90 ára löngu baráttu fyrir frjálsari milliríkjaviðskiptum. Tollar hafa nú verið afnumdir á öllum vörum nema búvörum. Þar heldur baráttan áfram, því að þær eru augljóslega ekki háðar öðrum lögmálum en aðrar vörur. Félagið mun á nýju ári veita stjórnvöldum þétt aðhald. Í því felst, þó furðulegt megi virðast að þess þurfi með, að gera þá kröfu að ríkið fari að dómum Hæstaréttar og EFTA-dómstólsins um að afnema verði ólögmætt bann við innflutningi á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk. Þrjózkist íslenzk stjórnvöld við að fara að niðurstöðum dómstóla, er EES-samningurinn settur í uppnám, auk þess sem grunnforsendur réttarríkisins krefjast þess að ríkið virði niðurstöður dómstóla. Sama má segja ef Alþingi samþykkir ekki lög til innleiðingar á þriðja orkupakkanum, en þröngur hópur berst nú ákaft gegn innleiðingu hans og byggir málflutning sinn aðallega á rangfærslum. EES-samningurinn er grunnstoð undir utanríkisviðskiptum Íslands og væri skelfilega misráðið af stjórnmálamönnum að höggva í hana án þess að skoða afleiðingarnar fyrir íslenzkt atvinnulíf.

Nýjar fréttir

Innskráning