68% hækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði á sex árum – FA skorar á sveitarfélögin að lækka álagningarprósentu

01.06.2021
Smelltu á myndina til að stækka hana. Heimild: Árbók sveitarfélaga.

Stjórn Félags atvinnurekenda hefur samþykkt eftirfarandi ályktun, sem send hefur verið öllum sveitarfélögum í landinu:

„Stjórn Félags atvinnurekenda skorar á sveitarfélög að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði við gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár til að bregðast við miklum hækkunum fasteignamats fyrir árið 2022.

Samkvæmt nýbirtu fasteignamati er hækkun mats atvinnuhúsnæðis 6,2% á landinu öllu; um 5,4% á höfuðborgarsvæðinu en um 8% á landsbyggðinni. Að óbreyttu þýðir þetta samsvarandi skattahækkun á fyrirtækin. FA bendir á að frá því að núverandi tekjumatsaðferð var tekin upp við útreikning fasteignamats atvinnuhúsnæðis fyrir árið 2015 og til ársins 2020 hefur álagður fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði á landinu hækkað úr tæplega 17 milljörðum króna í um 28,5 milljarða. Skattbyrði fyrirtækjanna hefur á þessum skamma tíma þyngst um 11,5 milljarða eða tæplega 68%, þrátt fyrir lækkanir einstaka sveitarfélaga á skattprósentu.

Við svo búið verður ekki unað lengur. Áframhaldandi þynging á skattbyrði fyrirtækjanna vegna húsnæðis dregur mátt úr atvinnulífinu, seinkar efnahagsbatanum eftir heimsfaraldurinn og skerðir getu fyrirtækjanna til að standa undir launagreiðslum sem um var samið í lífskjarasamningunum og eru grundvöllur útsvarstekna sveitarfélaganna.

Stjórn FA telur að hér verði hvert og eitt sveitarfélag að sýna ábyrgð og gera breytingar á sinni álagningarprósentu þannig að hækkanir á fasteignasköttum skaði ekki atvinnulífið í landinu meira en orðið er. FA skorar jafnframt á sveitarfélögin að taka upp viðræður hið fyrsta við ríkisvaldið um breytingar á þessu fráleita kerfi þar sem skattgreiðslur af húsnæði eru beintengdar við þróun fasteignamats og taka þannig sjálfkrafa hækkunum, án nokkurs tillits til gengis atvinnulífsins að öðru leyti.“

Nýjar fréttir

Innskráning