Atvinnurógi þingmanns svarað

01.02.2020

Eftirfarandi fréttatilkynning hefur verið send fjölmiðlum:

Félag atvinnurekenda lýsir mikilli furðu á yfirlýsingum Haraldar Benediktssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann ber heila atvinnugrein þungum og órökstuddum sökum.

Félag atvinnurekenda sendi fjármálaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra erindi í október síðastliðnum og óskaði viðræðna við ráðuneyti þeirra um niðurfellingu tolla á blómum. Í erindi FA var bent á það óhagræði, háa verð og samkeppnishömlur sem leiða af gríðarlega háum blómatollum.

Erindi FA fylgdi stuðningsyfirlýsing 25 blómaverslana, -innflytjenda og -verkstæða víða um land, sem í sameiningu standa fyrir drjúgum meirihluta blómaverslunar og blómainnflutnings á Íslandi. Fundur var haldinn með ráðuneytunum þar sem fyrirtæki í blómainnflutningi lýstu m.a. margvíslegum vandkvæðum sem úrelt tollaumhverfi skapar og farið var yfir hvernig mætti lækka eða afnema tolla á ýmsum blómum en viðhalda engu að síður vernd fyrir innlenda blómaframleiðendur. Skömmu síðar upplýsti fjármálaráðuneytið að farið yrði í vinnu við endurskoðun blómatolla.

Ásakanir um alvarleg lögbrot
Haraldur segir í pistli á Facebook-síðu sinni: „Raunveruleikinn er sá að með röngum skráningum og blekkingum tókst heildsölum að flytja inn blóm, sem framleidd eru með eiturefnanotkun og gasbrennslu, með því ma að skrá þau í tollskjölum sem túnþökur! Eða beita öðrum blekkingum eins og rangri tegundaskráningu tollfrjálsra tegunda blóma.

Eftir að gripið var til aðgerða gegn ólöglegu smygli bregðast sérhagsmunasamtökin við með því að senda fjármálaráðuneytinu bréf og krefjast að starfsumhverfi blómabænda verði kollvarpað. Færa fyrir því þekkt falsrök um skort og aðrar þekktar röksemdir þeirra sem telja að hagnaðarsjónarmið víki alltaf til hliðar heilbrigðri samkeppni og þekktu starfsumhverfi.“

Þingmaðurinn talar í framhaldinu um „misnotkun og smygl“, „áralanga brotastarfsemi“ og að blómaheildsalar hafi stundað að „blekkja og stela“.
Ótengd mál
Félag atvinnurekenda vísar þessum málflutningi til föðurhúsanna. Ef Haraldur Benediktsson býr yfir gögnum um hegningarlagabrot á borð við þjófnað og smygl í tengslum við blómainnflutning kemur hann þeim væntanlega til þar til bærra yfirvalda til rannsóknar. Að saka heila atvinnugrein um slíkt án dæma eða sannana er hins vegar þingmanninum lítt til sóma.

Erindi FA til ráðuneytanna er allsendis ótengt háttsemi á borð við þá sem Haraldur Benediktsson lýsir, enda hefur félagið ekki heyrt af slíku fyrr en í pistli þingmannsins. Vinna stjórnvalda við að skapa heilbrigðara samkeppnisumhverfi fyrir blómaverslun, neytendum til hagsbóta, kemur ásökunum þingmannsins ekkert við.

Haraldur hlýtur að koma sönnunum fyrir lögbrotum einstakra fyrirtækja til löggæsluyfirvalda hið snarasta. Ef hann gerir það ekki, hlýtur hann að draga atvinnuróginn til baka og biðjast afsökunar. Hvort sem gerist hefur væntanlega engin áhrif á vinnu stjórnvalda við almenna lagaumgjörð innflutnings á blómum.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning