Eins eða tveggja metra regla í fræðslufyrirtækjum?

21.08.2020
Ljósmynd: Dale Carnegie

Félag atvinnurekenda hefur sent menntamálaráðherra erindi og farið fram á að skýrt verði hvort einkareknum fræðslufyrirtækjum verði gert að fylgja reglu um eins eða tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga í starfsemi sinni. FA vísar til auglýsingar heilbrigðisráðherra, sem tók gildi 14. ágúst, en þar segir að í „leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum“ sé  heimilt að hafa einn metra á milli einstaklinga í stað tveggja, sem annars gildir.

Á vegum ýmissa félagsmanna FA, einkarekinna fræðslufyrirtækja, er rekin starfsemi sem að flestu leyti er sambærileg við skólastarf á háskóla- eða framhaldsstigi, þ.e. fullorðinsfræðsla og þjálfun, sem er mikilvægur hluti af menntakerfi landsins. Kennsla fer fram í kennslustofum þar sem kennt er í hópum sem gjarnan eru 20-30 manns. Tveggja metra reglan hefur torveldað mjög starfsemi þessara fyrirtækja. Sé hún áfram látin gilda um starfsemi þeirra munu þau neyðast til að skipta hópum af þeirri stærð, sem vanalega er kennt í, niður í marga smærri hópa. Í mörgum tilvikum yrðu þau að leigja viðbótarhúsnæði með miklum tilkostnaði. Sé miðað við eins metra fjarlægð, verður það verkefni strax viðráðanlegra.

FA hefur frá því að auglýsingin birtist leitast við að afla upplýsinga um hvort eins metra reglan verði látin gilda um þessa starfsemi jafnt og skólastarf í framhalds- og háskólum. Þess má geta að endurmenntunardeildir háskólanna veita þjónustu, sem er algjörlega sambærileg við starfsemi þessara félagsmanna FA og raunar í beinni samkeppni við hana, þ.e. fræðsla og þjálfun fullorðinna. Samkvæmt svörum, sem veitt hafa verið hjá endurmenntunardeildum, munu þær vinna samkvæmt eins metra reglunni.

FA sendi sóttvarnarlækni spurningar fyrr í vikunni, m.a. um það hvort einhver vísindaleg rök væru fyrir því að eins metra reglan ætti ekki að gilda um fullorðinsfræðslu og þjálfun rétt eins og kennslu í framhalds- og háskólum, og var þá vísað til minnisblaðs sóttvarnalæknis frá 12. ágúst, þar sem fjallað er um eins metra regluna. Engin svör hafa borist.

Á miðvikudag voru birtar á vef menntamálaráðuneytisins leiðbeiningar fyrir öll skólastig um framkvæmd sóttvarna í skólum og útfærslu ofangreindrar auglýsingar. Þar er m.a. að finna „leiðbeiningar um starf skóla og fræðsluaðila sem kenna á framhaldsskólastigi“ og er þar kveðið á um eins metra fjarlægðarregluna. Tekið er fram að leiðbeiningarnar gildi um „framhaldsnám í tónlistarskólum, listdans, lýðskóla, framhaldsfræðslu og íslenskukennslu fyrir útlendinga sem styrkt er af mennta- og menningarmálaráðuneyti.“

Óljóst er af þessu orðalagi hvort eins metra reglan gildir um starfsemi ofangreindra félagsmanna FA. Félagið sendi upplýsingafulltrúa ráðuneytisins spurningu um gildissviðið en fékk ekki skýr svör. FA hefur því farið þess vinsamlega á leit við menntamálaráðuneytið að það skýri nánar gildissvið leiðbeininganna og eftir atvikum auglýsingar heilbrigðisráðherra; gildir eins metra reglan í allri fræðslustarfsemi eða ekki?

„FA vill ítreka að sú starfsemi, sem félagsmenn þess hafa með höndum, er á flesta lund sambærileg við starf í framhalds- og háskólum. Það getur ekki skipt máli, þegar sóttvarnaráðstafanir eru útfærðar, hvort viðkomandi starfsemi er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneyti eða ekki eða hvort hún hefur viðurkenningu frá Menntamálastofnun eða ekki. Sambærilegar reglur eru ekki sízt mikilvægar vegna þeirra jafnræðissjónarmiða er snúa að samkeppnisstöðu einkarekinna fræðslufyrirtækja gagnvart endurmenntunardeildum háskólanna,“ segir í niðurlagi erindis FA.

Rifja má upp að FA hefur kvartað bæði til Eftirlitsstofnunar EFTA og Samkeppniseftirlitsins vegna aðgerða stjórnvalda, sem skekkt hafa samkeppnisstöðu félagsmanna í fræðslugeiranum gagnvart endurmenntunardeildum háskólanna.

Afrit af erindinu var sent á heilbrigðisráðherra og sóttvarnalækni.

Erindi FA til menntamálaráðherra

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning