Ekkert útboð, engar reglur, ekkert eftirlit

11.03.2015

ÓÞS Kastljós 110315Kastljós RÚV hélt í kvöld áfram umfjöllun sinni um flugfarmiðakaup ríkisins, sem hafa ekki verið boðin út árum saman þrátt fyrir lagaskyldu. Fjármálaráðuneytið hélt því í fyrstu fram að upplýsingar um viðskipti ríkisins við Icelandair væru ekki til í bókhaldinu, en hefur nú afhent Kastljósi gögn, sem sýna að ríkið hefur á undanförnum sex árum verslað við eitt flugfélag fyrir tæplega 1,8 milljarða króna án útboðs.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, benti í Kastljóssþættinum á að það væri brot á lögum um opinber útboð að bjóða þessi viðskipti ekki út. Athyglisvert væri að fjármálaráðuneytið, sem ætti að gegna því hlutverki að spara peninga skattgreiðenda, hefði ítrekað reynt að rökstyðja að flugmiðakaupin væru ekki útboðsskyld af því að kaup einstakra stofnana væru innan viðmiðunarmarka. „Ríkið er alltaf að reyna að koma sér undan því að nota kaupendastyrk sinn í akkúrat þessum innkaupum. Það er eiginlega alveg óskiljanlegt,“ sagði Ólafur.

Hann sagði að 10% afsláttur, sem ríkið hefur lengst af notið hjá Icelandair, væri einfaldlega of lítill. Ríkið vænti yfirleitt meiri afsláttar af jafnumfangsmiklum viðskiptum. Á síðasta ári hefði afslátturinn hækkað í 17%, sem væri út af fyrir sig jákvætt, en þá vaknaði sú spurning hvers vegna ekki hefði verið farið í útboð, í stað þess að semja upp á nýtt við Icelandair um hærri afslátt.

Ólafur gagnrýndi að engar reglur væru til um notkun ríkisstarfsmanna á vildarpunktum, sem fást fyrir flug hjá Icelandair og koma í hlut þeirra persónulega. Slíkar reglur gilda í flestum ríkjum sem Ísland ber sig saman við. Oftast nær er bannað að nýta vildarpunkta sem hafa fengist út á flug á kostnað skattgreiðenda. Þar sem það er leyfilegt eru reglur sem segja til um slíkt. Í vildarkerfinu felst hvati til að skipta fremur við Icelandair en önnur flugfélög og til að kaupa miða á dýrara farrými.

„Vildarpunktarnir ættu að koma í hlut ríkisins og nýtast tilað lækka kostnað okkar skattgreiðenda, en ekki til að borga sumarfrí ríkisstarfsmanna,“ sagði Ólafur.

Fram kom í Kastljósi að ein ríkisstofnun, Einkaleyfastofa, sker sig úr hvað varðar ferðir á Saga Class Icelandair miðað við umfang stofnunarinnar. Í fyrra ferðuðust starfsmenn stofnunarinnar á fyrsta farrými fyrir meiri peninga en til dæmis utanríkisráðuneytið og aðrar margfalt stærri stofnanir. „Það eru engar reglur og það er ekkert eftirlit heldur. Það eru í þessum tölum skrýtin dæmi um að pínulítil ríkisstofnun sé að fljúga fyrir hærri fjárhæðir á Saga Class en gjörvallt utanríkisráðuneytið. Þar eru menn bara að skammta sér þessi fríðindi, það er nú svo einfalt mál, á kostnað skattgreiðenda,“ sagði Ólafur.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning