Ekki heil brú í tillögum um neyslustýringarskatt

27.11.2020
Hlutfall vatnsdrykkja í gosneyslu landans hefur snarhækkað á fáum árum en sala á sykruðum drykkjum minnkar.

Félag atvinnurekenda gerir í erindi til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra alvarlegar athugasemdir við skýrslu starfshóps, sem falið var að gera tillögur að leiðum til að innleiða aðgerðaáætlun embættis landlæknis til að draga úr sykurneyslu landsmanna. Hópurinn leggur til að skattahækkun á ýmsa gos- og svaladrykki verði sett í forgang þannig að þeir hækki í verði um 20%. Í næsta skrefi verði skattar hækkaðir á sælgæti, orku- og próteinstykki, kex, kökur og sætabrauð þannig að þær vörur hækki einnig um 20%.

Gömul og óbirt gögn
FA gagnrýnir notkun Landlæknisembættisins og starfshópsins á gömlum og úreltum tölum, en fjögur erindi félagsins til heilbrigðisráðherra þar sem boðið hefur verið samstarf um að leiða fram réttar tölur um þróun sykureyslu landsmanna hafa verið hunsuð. Þá gagnrýnir FA samráðsleysi við gerð tillagnanna, en starfshópurinn leitaði t.d. aldrei eftir sölutölum gosdrykkja, sem FA bauð fram og sýna að neysla á sykruðu gosi hefur minnkað hratt undanfarinn áratug, án sykurskatts. Þess í stað styðst hópurinn við gömul gögn Landlækniembættisins, auk frumniðurstaðna úr mataræðiskönnun, sem ekki hafa verið birtar opinberlega og engin leið er að sannreyna.

Mótsagnakenndar og órökréttar tillögur
FA bendir á að ekkert innra, röklegt samhengi sé í tillögum hópsins um skattlagningu. Í erindi félagsins eru tillögur starfshópsins raktar:

  • Starfshópurinn vill í fyrsta lagi að hækkaðar verði álögur á sykraða gosdrykki, svaladrykki og íþrótta- og orkudrykki. Hér virðist átt við drykki með viðbættum sykri.
  • Í öðru lagi vill starfshópurinn leggja háan skatt á sambærilega drykki með sætuefnum. Rökstuðningurinn er að þessir drykkir viðhaldi löngun í sætt bragð og innihaldi sýrur, sem hafi glerungseyðandi áhrif.
  • Í þriðja lagi vill starfshópurinn leggja sama skatt á kolsýrða vatnsdrykki án sykurs og sætuefna ef þeir innihalda sítrónusýru. Það er einnig gert með vísan til tannverndarsjónarmiða.
  • Í fjórða lagi vill starfshópurinn leggja sambærilegan skatt á sælgæti, orku- og prótínstykki, kex, kökur og sætabrauð.

„Þetta bendir til þess að skatturinn sé alls ekki sykurskattur, heldur sé hann hugsaður líka sem t.d. tannverndarskattur og er líklega réttast að kalla hann bara neyzlustýringarskatt. Að leggja hann á sykurlausa drykki með sætuefnum og sítrónusýru hlýtur hins vegar að draga úr þeim tilætluðu áhrifum margumræddrar aðgerðaáætlunar að beina neyzlu fólks í vörur sem ekki innihalda sykur. Þannig er hinn augljósi valkostur við sykraða drykki, drykkir með sætuefnum, ekki gerður eftirsóknarverðari og hlýtur það að teljast mikið umhugsunarefni,“ segir í bréfi Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA til ráðherra.

„Starfshópurinn vill hins vegar ekki leggja neyzlustýringarskatt á náttúrulega ávaxtasafa, þrátt fyrir að þeir innihaldi mikið af bæði sykri og sýrum og læknar og tannlæknar vari við óhóflegri neyzlu þeirra vegna hættu á t.d. sykursýki, þyngdaraukningu og glerungseyðingu. Í kynningarefni Landlæknisembættisins sjálfs, t.d. veggspjaldinu „Þitt er valið“ er varað við neyzlu allra drykkja með sýrustig undir 5,5, en í þeim hópi eru m.a. hreinir ávaxtasafar án viðbætts sykurs.“

Enginn skattur á dísætar mjólkurvörur
„Starfshópurinn vill heldur ekki leggja neyzlustýringarskatt á mjólkurvörur þótt þær séu margar hverjar dísætar, t.d. kókómjólk eða engjaþykkni (Í 100 g af Coca Cola eru 10,6 g af sykri, í sama magni af engjaþykkni frá MS eru 13-16 g og af kókómjólk 8,7 g). Rökin eru þau að mjólkurvörur veiti ýmis næringarefni. Það er hins vegar líka tilfellið með t.d. ýmis orku- og prótínstykki. Í þessum rökstuðningi er því ekki heil brú,“ segir í bréfinu.

„Hópurinn vill setja skatt á drykkjarvörur í forgang, án annars rökstuðnings en þess að framlag sykraðra drykkja til sykurneyzlu sé 35%. Framlag sælgætis, orku- og prótínstykkja, kex og sætabrauðs er hins vegar líka sagt 35% í skýrslunni en samt á skattlagning á þær vörur ekki að vera í sama forgangi. Hvers vegna er ekki útskýrt.

Um 30 prósentin sem eru eftir er ekkert rætt í skýrslunni, nema hvað sætir mjólkurdrykkir eru afgreiddir í einni setningu. Við ættum þó að geta gefið okkur að sá sykur sé jafnhættulegur og hin 70 prósentin. Hvað á að gera t.d. við sykurríkt kakóduft, sem blandað er við mjólk eða vatn til að búa til sæta drykki? Þannig mætti áfram telja.“

Skattkerfið flækt og framkvæmdin flókin
Í bréfi FA er bent á að gengju tillögur hópsins eftir, yrðu þrjú þrep í virðisaukaskatti á matvörur, auk vörugjalds á sumar vörur. Fulltrúi fjármálaráðuneytisins í hópnum stóð ekki að tillögunum um að flækja þannig virðisaukaskattskerfið. FA bendir á að næðu hinar flóknu og órökréttu tillögur hópins fram að ganga myndi það búa til gríðarlega vinnu og kostnað jafnt fyrir fyrirtæki í matvöruverslun og fyrir opinberar stofnanir.

„Tillögur starfshópsins stefna okkur aftur djúpt inn í vörugjaldafrumskóginn, sem við vorum nýbúin að koma okkur út úr til mikils léttis jafnt fyrir verzlunina og opinberar eftirlitsstofnanir. Eftirlit með skattlagningu verður umfangsmeira, torveldara og dýrara nái tillögurnar fram að ganga. Að mati FA er þetta afskaplega misráðið og illa rökstutt. Tillögurnar virðast bera vott um að höfundar þeirra hafi lítinn skilning jafnt á rekstri fyrirtækja og stjórnsýslunnar,“ segir í bréfi FA til ráðherra.

Fimmta boðið um upplýsingar og samráð
Í lok bréfsins er ítrekað í fimmta sinn boð FA og félagsmanna þess um að setjast niður með ráðuneytinu og stofnunum þess og ræða hvernig setja megi fram réttar upplýsingar um sykurneyslu á Íslandi og þróun hennar og leiðir til að draga úr henni með upplýsingu, fræðslu og hvatningu.

Erindi FA til Svandísar Svavarsdóttur

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning