Er innflutningur ferskvöru hættulegur?

20.11.2017

Í umræðu um dóm EFTA-dómstólsins, þess efnis að bann við innflutningi á ferskum búvörum brjóti í bága við EES-samninginn, hefur ekki verið neinn hörgull á hrakspám um að slíkur innflutningur muni hafa afar neikvæð áhrif á heilsu fólks og búfénaðar. Fyrr á árinu bað Félag atvinnurekenda ráðgjafarfyrirtækið Food Control Consultants að vinna fyrir sig skýrslu um hugsanleg heilbrigðisáhrif af afnámi bannsins. Niðurstaða skýrsluhöfunda, byggð á langri reynslu og nýjustu vísindarannsóknum, er þvert á móti að ekki séu haldbær rök fyrir því að innflutningur á ferskum eggjum, vörum úr ógerilsneyddri mjólk og fersku kjöti muni hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu fólks og heilsufar dýra. Ekki virðist heldur hægt að fullyrða að innflutningur á þessum vörum muni hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþolinna baktería. Aukinn fjöldi fólks sem ferðast til og frá landinu virðist líklegri til að hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþols en innflutningur á matvælum.

Hægt að sækja um viðbótartryggingar vegna salmonellu og kamfýlóbakter
FA beindi til skýrsluhöfunda nokkrum spurningum vegna umræðna um innflutning ferskrar búvöru og er þeim svarað í ýtarlegu máli í skýrslunni. Karl G. Kristinsson, prófessor við Háskóla Íslands, hefur lýst áhyggjum af afnámi innflutningsbannsins. Karl segir í viðtali við Morgunblaðið að áhætta sé ekki mik­il tengd kjöti úr stór­grip­um, nema þá helst svína­kjöti, en aðaláhætt­an tengd kjúk­ling­um vegna mögulegs kólígerla-, kamfýlóbakter- og salmonellasmits. Rétt er að vekja athygli á að ein þeirra spurninga, sem FA beindi til höfunda skýrslunnar, var hvort stjórnvöld gætu stjórnvöld gripið til aðgerða til að takmarka hættu á mögulegum neikvæðum áhrifum innflutnings ferskvöru, sem væru minna íþyngjandi en bann við innflutningi á fersku kjöti. Í svari skýrsluhöfunda kemur fram að ákveðin lönd innan EES (hin norrænu ríkin fjögur) hafi fengið svokallaðar viðbótartryggingar vegna viðskipta með matvæli, sem hefur það í för með sér að taka þarf sýni af viðkomandi vörusendingum og gefa út vottorð um að varan sé ekki menguð, t.d. af salmonella.

Áætlunina vantar
Vegna þess að hægt er að nota viðbótartryggingar sem viðskiptahindrun gilda strangar reglur um beitingu þeirra. Sanna þarf að viðkomandi land eða svæði sé laust við ákveðinn sjúkdóm eða að sett hafi verið upp áætlun til að hindra útbreiðslu hans og útrýma sjúkdómnum. Þetta þarf að sanna með vísindalegum aðferðum. Íslensk stjórnvöld geta sótt um viðbótartryggingar og á grundvelli þeirra sett skilyrði um að ferskt kjöt verði að uppfylla ákveðnar kröfur, t.d. að fyrir liggi niðurstöður um salmonella eða kampýlobakter. Ákveðnu ferli þarf að fylgja til að sækja um slíkt, fyrst og fremst að gera áætlun um aðgerðir, þ.m.t. sýnatökur og aðgerðir þeim tengdar. Þessi aðferð er talin minna íþyngjandi og í fullu samræmi við þær reglur sem settar hafa verið fyrir önnur Norðurlönd. FA hefur hins vegar bent á að þrátt fyrir að niðurstaða EFTA-dómstólsins hafi verið fyrirséð, hafa íslensk stjórnvöld látið undir höfuð leggjast að vinna slíka áætlun og tryggja að eftirlit með þessum bakteríum hér á landi sé í samræmi við kröfur Evrópusambandsins. Ekki er seinna vænna en að hefja það starf nú þegar.

Ekki neikvæð áhrif í Noregi
Höfundar skýrslunnar skoðuðu sérstaklega stöðuna í Noregi, en þar hefur ferskt kjöt, egg og mjólkurvörur úr ógerilsneyddri mjólk verið flutt inn um árabil í samræmi við reglur EES. Niðurstaðan er að frjálst flæði þessara vara hafi hvorki haft áhrif á lýðheilsu né dýraheilbrigði í Noregi.

Lítið samhengi milli lyfjaþolinna baktería í fólki og matvælum
Í umræðum um innflutning kjöts hefur talsvert verið gert úr því að önnur ríki EES noti meira af sýklalyfjum í landbúnaði en Ísland og innflutningur á búvörum geti orsakað aukið þol gegn sýklalyfjum hjá fólki. Skýrsluhöfundar vísa til nýlegra rannsókna í Danmörku og Hollandi sem benda til að lítið samhengi sé á milli lyfjaþolinna baktería í fólki og þeirra sem finnast í matvælum. Niðurstaða þeirra er að ofnotkun sýklalyfja í heilbrigðiskerfinu sé nær alfarið orsök lyfjaþols sýkla hjá fólki.

Minna eftirlit en í öðrum EES-ríkjum
Eftirlit með sýklalyfjaleifum og fjölónæmum bakteríum í kjöti er enn sem komið er minna á Íslandi en í öðrum ríkjum EES, þar sem reglur ESB um skráningar og tilkynningar vegna lyfjaþolinna sýkla hafa enn ekki verið innleiddar hér á landi. Búist er við að reglurnar verði innleiddar bráðlega og sýnatökur á grundvelli þeirra verði framkvæmdar á þessu ári.

Höfundar benda á að ástæða sé til að huga vel að frárennslismálum til að fyrirbyggja sýklalyfjaóþol hjá fólki. Skólp og frárennsli séu einn helsti skaðvaldurinn hvað varðar bakteríumengun í umhverfinu, en í ljós hafi komið að frárennslismál séu víða í ólestri á Íslandi. Enn ríkari ástæða sé til að huga vel að frárennslismálum þar sem gífurleg aukning hafi orðið í fjölda fólks á landinu vegna ferðamannastraums.

Hverjir eru skýrsluhöfundar?
Food Control Consultants er staðsett í Edinborg en hefur unnið að verkefnum á sviði matvælaeftirlits og matvælaöryggis víða um heim, meðal annars fyrir Evrópusambandið, íslensk stjórnvöld og Bændasamtök Íslands. Höfundar skýrslu fyrirtækisins eru Ólafur Oddgeirsson og Ólafur Valsson, sem báðir hafa áratuga starfsreynslu á sviði dýralækninga, matvælaeftirlits og matvælaöryggis. Sá síðarnefndi hefur m.a. sérmenntun í faraldsfræði og smitsjúkdómum dýra.

Útdráttur úr skýrslunni (4 bls.)

Skýrslan í heild (64 bls.)

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning