FA andmælir að vera haldið utan við „þjóðarsamtalið“

21.10.2016

ThjodarsamtalGunnar Bragi Sveinsson landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að halda Félagi atvinnurekenda utan við samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga, sem hann átti að skipa fyrir 18. október.

Í tilkynningu á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í dag kemur fram að  að eftirtalin samtök verði beðin að tilnefna fulltrúa í starfshópinn: Alþýðusamband Íslands/BSRB, Bændasamtök Íslands (2 fulltrúar), Neytendasamtökin, Samtök afurðastöðva, Samtök atvinnulífsins. Auk þess skipi ráðherra formann af hálfu ríkisins.

FA hefur ritað ráðherranum bréf, þar sem farið er fram á að skipan starfshópsins verði endurskoðuð. Þar segir meðal annars: „Starfshópurinn um endurskoðun búvörusamninga átti, samkvæmt opinberum yfirlýsingum formanns atvinnuveganefndar Alþingis, að stuðla að „þjóðarsamtali“ og „þjóðarsátt“ um mótun landbúnaðarstefnu til framtíðar. Í samtölum formannsins við Félag atvinnurekenda á meðan nýsamþykkt búvörulagafrumvarp var til umfjöllunar í nefndinni kom ítrekað fram að hann gerði ráð fyrir að FA myndi eiga aðild að þeim samráðsvettvangi sem nefndin vildi lögfesta að yrði settur á laggirnar til þess að kalla sem flest sjónarmið að borðinu og ná sem breiðastri samstöðu um umgjörð landbúnaðarstefnunnar. Í áliti meirihluta nefndarinnar kom fram að helztu hagsmunaaðilar ættu að eiga aðild að samráðshópnum. Þá var því beint til ráðherra að tryggja samráðshópnum viðeigandi starfsskilyrði. Í þessu ljósi veldur skipan starfshópsins Félagi atvinnurekenda verulegum vonbrigðum og getur félagið ekki komizt að annarri niðurstöðu en þeirri að loforðið um þjóðarsamtal hafi verið svikið.“

Eini lögbundni umsagnaraðilinn sem ekki á fulltrúa
Í erindinu til ráðherra bendir FA á að félagið hefur verið leiðandi afl í allri umræðu um aukið frelsi á sviði landbúnaðarmála og hefur ekki sízt látið til sín taka í umræðu um fyrirkomulag innflutningsmála, tollvernd, úthlutun tollkvóta og fleira af því tagi. Hefur félagið látið vinna umfangsmikla greiningarvinnu á þessu sviði og hefur margt til málanna að leggja. „Eins og ráðherra hefur sjálfur vakið athygli á opinberlega gætir félagið ekki sízt hagsmuna innflytjenda búvara. Þá má benda á að FA er samkvæmt 87. grein búvörulaga lögbundinn umsagnaraðili um tillögur ráðgjafanefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara, ásamt Bændasamtökunum, Neytendasamtökunum og Samtökum verzlunar og þjónustu, sem eru aðildarsamtök Samtaka atvinnulífsins. Það liggur því fyrir að allir lögbundnir umsagnaraðilar samkvæmt búvörulögum munu eiga sæti í starfshópnum, nema Félag atvinnurekenda,“ segir í bréfinu.

Ekki góð stjórnsýsla
FA vekur athygli ráðherra á því að félagið á enga aðild að Samtökum atvinnulífsins, heldur gætir hagsmuna fyrirtækja sem flest hver standa utan þeirra samtaka. „Sú ákvörðun ráðherra að halda mikilvægum hagsmunaaðila þannig utan við samráð, sem átti að stuðla að því að sem flest sjónarmið yrðu leidd saman, getur ekki talizt góð stjórnsýsla. FA vekur ennfremur athygli á því að eins og starfshópurinn verður skipaður að tillögu ráðherra munu ríkið og landbúnaðurinn eiga meirihluta í honum. Sú gagnrýni, sem sett var fram af hálfu FA og margra annarra hagsmunasamtaka – og meirihluti atvinnuveganefndar tók mark á – var einmitt að ekki gengi að ríkið og landbúnaðurinn véluðu ein um mál sem varðaði jafnmikla fjármuni og jafnvíðtæka hagsmuni. Í þessu ljósi fer Félag atvinnurekenda fram á það við ráðherra að hann endurskoði ákvörðun sína um skipan starfshópsins.

Bréf FA til landbúnaðarráðherra

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning