FA fær aðild að „þjóðarsamtalinu“ um búvörusamninga

31.01.2017

ThjodarsamtalÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra hefur skipað á nýjan leik í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Nýr ráðherra hefur orðið við óskum Félags atvinnurekenda um að félagið fengi aðild að því „þjóðarsamtali“ um landbúnaðinn sem boðað var til með stofnun hópsins, en fyrirrennari hennar svaraði aldrei erindi félagsins þessa efnis. Fulltrúi FA í nefndinni verður Páll Rúnar M. Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður og starfsmaður félagsins.

Jón Gunnarsson, fyrrverandi formaður atvinnuveganefndar Alþingis, hafði heitið FA því að félagið myndi eiga fulltrúa í nefndinni, þar sem ætti að fara fram þjóðarsamtal sem legði grunn að þjóðarsátt um landbúnaðinn. Gunnar Bragi Sveinsson ráðherra taldi sig óbundinn af slíkum loforðum. Var FA þannig eini lögbundni umsagnaraðilinn um innflutning búvara, sem ekki fékk sæti í nefndinni og hefur félagið mótmælt því harðlega.

Í tilkynningu atvinnuvegaráðuneytisins um breytta skipan starfshópsins kemur fram að ráðherra meti það svo að mikilvægt sé að víðtæk samvinna og sátt náist við breytingar á búvörusamningi og búvörulögum. „Í stjórnarsáttmála segir m.a. „… að við þessar breytingar verði lögð áhersla á hagsmuni og valfrelsi neytenda og bænda. Áfram verði tryggð framleiðsla heilnæmra, innlendra afurða í umhverfisvænum og samkeppnishæfum landbúnaði.“ Breið aðkoma hagsmunaaðila við endurskoðun búvörusamnings er því nauðsynleg,“ segir í tilkynningunni.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segist fagna ákvörðun ráðherra. „Við tökum undir þær áherslur sem er að finna í stjórnarsáttmálanum og viljum leggja okkar af mörkum til að á Íslandi verði rekinn öflugur landbúnaður. Hann á að njóta stuðnings, en ekki ofverndar frá heilbrigðri samkeppni með ofurtollum og öðrum innflutningshömlum. Við tökum þátt í þessu starfi af fullum heilindum og með hagsmuni heildarinnar; bænda, neytenda og atvinnulífsins, að markmiði,“ segir Ólafur.

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning