FA fagnar tollalækkun, harmar að tryggingagjald lækki ekki frekar

08.09.2015

Stjórn Félags atvinnurekenda samþykkti á fundi sínum í dag eftirfarandi ályktun:

Bjarni á aðalfundiFélag atvinnurekenda fagnar því að í fjárlagafrumvarpi næsta árs sé kveðið á um afnám tolla af fötum og skóm um áramót. Ennfremur fagnar stjórn FA áformum stjórnvalda um að afnema fleiri tolla á næsta ári. Tollalækkunaráform stjórnvalda eru mikilvægt framhald þess afnáms vörugjalda sem hófst um síðustu áramót og stórt skref í átt til þess að efla frjálsa milliríkjaverslun. FA hvetur til þess að þessi áform nái til alls innflutnings, og að einstökum atvinnugreinum sé ekki hlíft við þeirri samkeppni sem felst í viðskiptafrelsi.

Stjórn FA skorar því á ríkisstjórnina að endurskoða þá afstöðu sína að viðhalda tollum á ýmsar innfluttar matvörur. Matartollarnir hækka vöruverð í landinu og vernda óhagkvæmar búgreinar fyrir erlendri samkeppni, sem myndi hvetja til hagræðingar og vöruþróunar. Í sumum tilvikum eru raunar lagðir gífurlegir tollar á innfluttar matvörur án þess að séð verði að verið sé að vernda neina innlenda starfsemi. Má þar nefna 76% tolla á franskar kartöflur, sem hverfandi framleiðsla er á innanlands, 59% tolla á kartöflusnakk og háa tolla á ýmsar búvörur sem eiga sér engar hliðstæður í innlendri framleiðslu. 

Stjórn FA harmar að ekki sé gert ráð fyrir lækkun á tryggingargjaldi umfram þá litlu breytingu sem áður hafði verið ákveðin. Það er ekki í samræmi við fyrri ummæli fjármálaráðherra um að hann vildi leita leiða til að flýta lækkun tryggingagjalds. Háir launaskattar á borð við tryggingagjaldið draga úr getu fyrirtækja til að greiða hærri laun eða bæta við sig fólki. Hátt tryggingagjald stuðlar því í raun að auknu atvinnuleysi og torveldar fyrirtækjum að taka á sig þær byrðar sem felast í nýgerðum kjarasamningum. Frekari lækkun tryggingagjalds myndi örva atvinnulífið og skila ríkissjóði talsverðum tekjum í stað þeirra sem töpuðust með því að lækka hlutfall þessa tiltekna skatts. 

Nýjar fréttir

Innskráning