Félag atvinnurekenda hefur sent atvinnuvegaráðuneytinu bréf til að ítreka kröfu sína frá því í síðustu viku, um að ráðuneytið endurgreiði innflytjendum búvöru útboðsgjald vegna tollkvóta, sem Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt ólögmætt og í andstöðu við stjórnarskrá.
Ráðuneytið hefur í engu brugðist við kröfu FA eða einstakra innflutningsfyrirtækja um endurgreiðslu hins ólögmæta gjalds. Fyrir liggur að hér er um mikla hagsmuni neytenda að tefla. Í fréttum Stöðvar 2 síðastliðið sunnudagskvöld kom til dæmis fram að smásölukeðjan Hagar á í fyrirframgreiddum en ónýttum innflutningsheimildum um 100 milljónir króna, sem fyrirtækið gæti skilað til neytenda yrði útboðsgjaldið endurgreitt.
Í bréfi FA segir: „Alls er um hundraða milljóna króna hagsmuni að ræða fyrir íslenzk heimili. Eins og fram kom í fyrra bréfi FA munu allar tafir á endurgreiðslu óhjákvæmilega valda neytendum frekara fjárhagslegu tjóni. Það væri ekki úr vegi að ráðuneytið skýrði að minnsta kosti fyrir neytendum hvort og þá hvers vegna það hyggist af eindregnum ásetningi stuðla að slíku tjóni með því að aðhafast ekkert í málinu.
Félag atvinnurekenda ítrekar þá afstöðu að ráðuneytinu beri að endurgreiða innflutningsfyrirtækjum öll þau útboðsgjöld sem þau hafa greitt fyrir ónýttar innflutningsheimildir. Jafnframt er ítrekuð sú krafa að þessi endurgreiðsla fari tafarlaust fram til að lágmarka tjón neytenda.“