Félag atvinnurekenda hefur ítrekað fyrirspurn sína til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um afstöðu ráðuneytis hans til pöntunarþjónustu Fríhafnarinnar í Leifsstöð, svokallaðrar Express-þjónustu. Hún gengur út að fólk getur pantað vörur án opinberra gjalda á netinu og svo eru þær sóttar í brottfarar- eða komuverzlun Fríhafnarinnar. Ekkert kemur í veg fyrir að fólk fái vini og vandamenn sem eiga leið um flugvöllinn til að sækja þessar pantanir fyrir sig.
Í fyrra bréfi FA til ráðherra, sem var sent 12. ágúst, var rifjað upp að í ágúst 1996 brást forveri ráðherrans, Friðrik Sophusson, hratt við athugasemdum Félags íslenskra stórkaupmanna, forvera FA, við sambærilega þjónustu Fríhafnarinnar. Svar við bréfi FÍS barst daginn eftir og var skýrt og skorinort: „Heimild til innflutnings á vörum án greiðslu aðflutningsgjalda er bundin við vörur til eigin nota fyrir ferðamenn og telur fjármálaráðuneytið að gera eigi kröfu um að þeir greiði sjálfir fyrir þær vörur sem þeir kaupa í fríhöfn og flytja til landsins.“ Í framhaldinu var tekið fyrir símasölu Fríhafnarinnar.
Í bréfinu sem ráðherra var sent í ágúst var spurt hvort afstaða ráðuneytisins til pöntunarþjónustu af þessu tagi hefði breytzt. Ef ekki, til hvaða aðgerða ráðuneytið hygðist þá grípa. Talsvert virðist hafa hægst á stjórnsýslunni frá því árið 1996, því að ekkert svar hefur borist, rúmlega 10 vikum síðar.
Í bréfi Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA til fjármálaráðherra segir að spurninguna til ráðherra megi jafnframt setja í samhengi við nýja landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins, en þar segir að það sé ekki hlutverk ríkisins að reka verslunarmiðstöð á Keflavíkurflugvelli, hvorki komu- né brottfararverslun.
„Í nýju áliti Samkeppniseftirlitsins, sem beint var til innanríkisráðherra í síðustu viku, segir að Isavia, móðurfyrirtæki Fríhafnarinnar, hafi „neikvætt viðhorf til samkeppni“. Forsvarsmenn ríkisfyrirtækisins eru þó mjög áhugasamir um samkeppni við verzlunina í landinu, enda er Fríhöfnin orðin stærsti snyrtivörusali landsins og hefur fært út kvíarnar í nærföt og leikföng, svo dæmi séu tekin,“ segir jafnframt í bréfi Ólafs. „Með rekstri pöntunarþjónustunnar er þessi ríkisrekna samkeppni við einkaaðila komin út fyrir öll eðlileg mörk, eins og rökstutt var í fyrra bréfi FA.“
Bréf FA til fjármálaráðherra, 28. október 2015
Bréf FA til fjármálaráðherra, 12. ágúst 2015