FA kvartar til eftirlitsnefndar vegna brota Póstsins

16.10.2018

Félag atvinnurekenda hefur kvartað til eftirlitsnefndar, sem fylgjast á með því að Íslandspóstur ohf. fari að ákvæðum sáttar, sem ríkisfyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið á síðasta ári. Að mati FA felur ársreikningur ePósts, dótturfélags Íslandspósts, í sér skýrt brot á sáttinni, þar sem vextir eru ekki reiknaðir af nærri 300 milljóna króna láni Íslandspósts til dótturfélagsins.

Fyrst var vakin athygli á þessu máli í fjölmiðlinum Stundinni. Í sáttinni, sem Íslandspóstur gerði við Samkeppniseftirlitið í febrúar 2017, segir meðal annars um lánafyrirgreiðslu til dótturfélaga: „Íslandspósti er óheimilt að veita dótturfélögum sínum lán á kjörum sem eru undir markaðskjörum sem sambærileg fyrirtæki njóta. Skulu kjör áður veittra lána Íslandspósts til dótturfélaga endurskoðuð með hliðsjón af þessu ákvæði.“

Í ársreikningi ePósts kemur fram að skuld félagsins við Íslandspóst sé tæplega 284 milljónir króna. Að mati FA ætti hún að vera mun hærri, þar sem reikna hefði átt markaðsvexti af upphaflegu láni frá 2013 og bæta þeim við höfuðstólinn. Vexti ársins 2017 hefði svo átt að reikna af þeirri fjárhæð. Nokkuð ljóst er að það hefur ekki verið gert, þar sem vaxtagjöld ePósts á árinu 2017 eru 5.547 krónur! Í bréfi FA til eftirlitsnefndarinnar er farið fram á að málið verði skoðað og að lán Íslandspósts til annarra dótturfélaga verði jafnframt skoðuð og metið hvort um sé að ræða brot á sáttinni.

„Íslandspóstur hefur nánast frá upphafi sýnt að fyrirtækið hefur lítinn áhuga á að breyta samkeppnisháttum sínum og halda sáttina við samkeppnisyfirvöld,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Blekið var til dæmis varla þornað á sáttinni þegar Pósturinn sagði upp afsláttum póstsöfnunarfyrirtækja, sem hefði þvingað þau til að hætta rekstri. Póst- og fjarskiptastofnun stöðvaði þau áform, en Íslandspóstur skaut þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar. Í tilviki ePósts er um að ræða skýrt og skjalfest brot á sáttinni, sem samkeppnisyfirvöld hljóta að taka hart á.“

Kvörtun FA til eftirlitsnefndarinnar

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning