FA kvartar til Samkeppniseftirlitsins vegna ríkisstuðnings við endurmenntunardeildir

21.08.2020
Skjáskot af vef Endurmenntunar Háskóla Íslands fyrr í sumar. Námskeiðin sem hér sjást eru öll í beinni samkeppni við námskeið á vegum einkafyrirtækja og öll niðurgreidd af menntamálaráðuneytinu. Verðið er 3.000 krónur, en það treystir ekkert einkarekið fræðslufyrirtæki sér til að keppa við.

Félag atvinnurekenda hefur kvartað til Samkeppniseftirlitsins vegna niðurgreiðslu ríkisins á sumarnámi fyrr í sumar. 500 milljónir króna voru veittar til sumarnáms á háskólastigi og leiddi skoðun FA í ljós að verulegur hluti þeirrar fjárhæðar rann til endur- og símenntunarstofnana háskólanna og að námskeið, sem eru utan verksviðs háskólanna eins og það er skilgreint í lögum, voru niðurgreidd um tugi þúsunda króna. Viðkomandi starfsemi er í beinni samkeppni við námskeið á vegum einkarekinna fræðslufyrirtækja.

Í framhaldi af fjárveitingunni auglýstu endurmenntunardeildir háskólanna námskeið, sem alla jafna kosta tugi þúsunda, á þrjú þúsund krónur. Í kynningu á námskeiðunum kom fram berum orðum að þau væru niðurgreidd af menntamálaráðuneytinu. Keppinautar endurmenntunardeildanna gátu augljóslega ekki keppt við 3.000 króna námskeiðsgjald og þurftu í ýmsum tilvikum að fella niður sambærileg námskeið.

Að mati FA er þessi útfærsla á styrkjum til sumarnáms ólögmæt og brýtur í bága við samkeppnisreglur. Félagið telur ríkisstyrkinn annars vegar brjóta gegn 61. grein samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um ólögmæta ríkisaðstoð, enda veita félagsmenn FA í fræðslugeiranum sumir hverjir þjónustu í samstarfi við fyrirtæki sem staðsett eru í öðrum EES-ríkjum. Félagið kvartaði til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna þess hluta málsins fyrr í sumar. Þá telur félagið ríkisstuðninginn ganga gegn ákvæðum 16. greinar samkeppnislaga um athafnir opinberra aðila, sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni.

Fjárhagslegur aðskilnaður í heiðri hafður hjá EHÍ?
FA fer einnig fram á að Samkeppniseftirlitið skoði hvort starfsemi Endurmenntunar Háskóla Íslands (EHÍ) samræmist samkeppnislögum. Í reglum um EHÍ kemur fram að sé um að ræða útselda þjónustu, sem veitt sé í samkeppni við einkaaðila, skuli sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum, í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Engu að síður fari ekki á milli mála að áðurnefndri fjárveitingu til Háskóla Íslands vegna sumarnáms hafi að hluta verið ráðstafað beint til Endurmenntunar HÍ til að niðurgreiða námskeið, sem veitt eru í beinni samkeppni við einkaaðila. FA fer m.a. fram á að Samkeppniseftirlitið skoði hvort fyrirmælum 14. greinar samkeppnislaga um fjárhagslegan aðskilnað og áðurnefndum ákvæðum í reglum um EHÍ sé fullnægt. FA fái ekki séð að reikningshald EHÍ sé að finna í ársreikningum Háskóla Íslands.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning