FA skorar á sveitarfélög að lækka fasteignagjöld fyrirtækja

24.08.2017

Félag atvinnurekenda hefur ítrekað bréflega áskorun sína til sveitarfélaga, þar sem aðildarfyrirtæki félagsins starfa, að þau lækki álagningarprósentu fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði til að mæta gífurlegum hækkunum fasteignamats á undanförnum árum.

Í bréfi, sem FA hefur sent forsvarsmönnum sveitarfélaga, er farið yfir hvernig tekjur þeirra af fasteignagjöldum fyrirtækja hafa hækkað undanfarin ár. Svo dæmi sé tekið hækkuðu tekjur Reykjavíkurborgar um 1,8 milljarða á árunum 2013-2016, eða um tæp 24%. Þessar hækkanir eru gífurlega íþyngjandi fyrir fyrirtæki og er skorað á sveitarfélögin að taka mið af þessum veruleika við gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár.

Í bréfi FA er rifjað upp að félagið skrifaði sveitarfélögum í nóvember síðastliðnum og fór fram á rökstuðning fyrir beitingu heimildar í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að leggja 25% álag á fasteignagjald. Sum sveitarfélög svöruðu ekki þeirri beiðni. Í svörum þeirra sem brugðust við beiðni FA kom ekki fram neinn efnislegur rökstuðningur fyrir því að beita álagi á grunnprósentu fasteignagjalds á atvinnuhúsnæði, en hún er 1,32% af fasteignamat. Langflest sveitarfélög beita álaginu og innheimta 1,65% af fasteignamati.

Ekki vísað til neinna kostnaðarútreikninga
FA spurði einnig hvort kostnaðarútreikningar lægju að baki ákvörðun um að leggja 25% ofan á grunnprósentu fasteignagjaldsins. Í greinargerð með núgildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga kom fram að fasteignagjaldið ætti að vera endurgjald fyrir veitta þjónustu, en ekki eignarskattur. Í svörum sveitarfélaganna er engu að síður ekki vísað til neinna kostnaðarútreikninga sem sýni fram á að beiting álagsins sé nauðsynleg vegna kostnaðar við að veita fyrirtækjum þjónustu.

„Við lítum á það sem sanngirnismál að sveitarfélögin endurskoði álagningarprósentu fasteignagjaldsins,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Gríðarlegar hækkanir á fasteignamati hafa leitt til þess að skattbyrði fyrirtækja hefur þyngst verulega, án þess að nokkuð hafi gerst í rekstri þeirra flestra sem auðveldar þeim að standa undir þeirri byrði. Af og til á undanförnum árum hefur álagningarprósenta á íbúðarhúsnæði verið lækkuð til að mæta miklum hækkunum á fasteignamati. Það heyrir til algjörra undantekninga að fyrirtækin njóti slíkrar sanngirni.“

Fyrirtæki innan FA undirbúa nú málsókn gegn Reykjavíkurborg til að láta reyna á ýmis álitamál varðandi útreikning og álagningu fasteignagjalda.

Bréf FA til Reykjavíkurborgar

Nýjar fréttir

Innskráning