FA vill eyða óvissu varðandi netverslun með áfengi

08.10.2021
Skjáskot úr vefverzlunum með áfengi

Félag atvinnurekenda hefur ítrekað við dómsmálaráðuneytið erindi sitt til stjórnvalda um að þau gefi fyrirtækjum sem starfa á áfengismarkaði eða hafa hug á að hefja þar starfsemi skýra leiðbeiningu um lögmæti netverslunar með áfengi. Rúmlega átta vikur eru frá því að FA sendi fjármálaráðuneytinu fyrst erindi um málið. Rúmum tveimur vikum síðar var því vísað til dómsmálaráðuneytisins, sem ekki hefur gefið nein svör.

Í erindi FA til dómsmálaráðuneytisins er rifjað upp að hér á landi hafi undanfarið starfað netverslanir með áfengi, með mismunandi sniði. Komið hafi fram að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, undirstofnun fjármálaráðuneytisins, hafi kært netverslanir í tvígang til lögreglu og tilkynnt starfsemi þeirra til sýslumanns, auk þess að kæra a.m.k. eina netverslun til embættis ríkisskattstjóra, í þeim tilgangi að stöðva starfsemi þeirra. Þessi yfirvöld hafa ekki aðhafst neitt til að stöðva starfsemi umræddra fyrirtækja. Af því verður varla dregin önnur ályktun en sú að þau telji starfsemina innan ramma laga og reglna, segir í erindi FA.

Framferði ÁTVR fælir fyrirtæki frá
„Framferði ÁTVR í málinu er hins vegar augljóslega til þess fallið að skapa óvissu og fæla fyrirtæki frá þátttöku á þessum nýja markaði, enda er það væntanlega tilgangurinn,“ segir í bréfi FA, sem Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri undirritar. „Eftir að FA sendi ítrekun á erindi sínu til fjármálaráðuneytisins hefur hin opinbera stofnun höfðað einkamál á hendur a.m.k. tveimur netverzlunum með áfengi og krafizt þess að þeim verði gert að hætta starfsemi, að viðlögðum dagsektum, auk þess sem ríkisstofnunin krefst bóta úr hendi fyrirtækjanna. Hér virðist ÁTVR hafa tekið sér eftirlitshlutverk á áfengismarkaðnum og er stofnunin þá komin langt út fyrir það hlutverk sem henni er markað lögum samkvæmt. Fjármálaráðuneytið, sem ÁTVR heyrir beint undir, hefur engu að síður ekki séð ástæðu til að grípa inn í þessa vegferð stofnunarinnar.“

Óþolandi óvissuástand
FA telur þetta óvissuástand óþolandi fyrir fyrirtæki sem starfa á áfengismarkaðnum eða horfa til þess að hasla sér þar völl. Innan raða FA eru bæði fyrirtæki sem hafa hug á að koma ný inn á vaxandi markað netverslunar með áfengi og fyrirtæki sem hafa um árabil flutt inn og/eða framleitt áfengi og sjá sér ekki annan kost en að bregðast við þeirri nýju samkeppni, sem að sjálfsögðu felst í netsölu áfengra drykkja. Í báðum tilvikum vilja félagsmenn FA hins vegar hafa vissu fyrir því að taki þeir upp netsölu áfengis sé sú starfsemi innan ramma laga og reglna.

„Í tilviki þeirra félagsmanna FA, sem fyrir eru á áfengismarkaðnum, hefur rekstur hinna nýju netverzlana í einhverjum tilvikum þýtt missi viðskipta, sem getur verið umtalsverður. Frá sjónarhóli þessara fyrirtækja virðast þeir, sem eru reiðubúnir að starfa við lagalega óvissu, hafa samkeppnisforskot á fyrirtæki sem vilja ekki hætta orðspori sínu eða fjármunum til að hefja starfsemi sem mun nánast örugglega hafa í för með sér kærur og málsóknir frá stofnun á vegum hins opinbera,“ segir í erindi félagsins.

Fyrirtæki eiga skýlausan rétt á leiðbeiningu ráðuneytisins
FA segir að ekki ætti að vera þörf á að minna ráðuneytið á þá ótvíræðu leiðbeiningarskyldu sem það ber skv. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga: „Stjórnvald skal veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess.“ Félagið ítrekar því þær spurningar sínar til stjórnvalda, sem settar voru fram 9. ágúst síðastliðinn.

„Svara við þessum spurningum er óskað innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfs þessa, enda eru umtalsverðir hagsmunir í húfi og áframhaldandi óvissa veldur hópi fyrirtækja æ meira tjóni. Eins og áður segir hafa félagsmenn FA áhuga á að taka þátt í þeirri samkeppni sem hafin er í netverzlun með áfengi, en telja mikilvægt að hafa vissu fyrir því að þeir starfi innan ramma laga og reglna og eigi ekki von á inngripum stjórnvalda. Þeir eiga skýlausan rétt á leiðbeiningu ráðuneytisins,“ segir í erindi FA.

Erindi FA til dómsmálaráðuneytisins

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning