FA vill skýr svör um lögmæti netverslana með áfengi

10.08.2021
Skjáskot úr fjórum vefverslunum með áfengi. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Félag atvinnurekenda hefur sent fjármála- og efnahagsráðuneytinu erindi, þar sem farið er fram á skýr svör ráðuneytisins um lögmæti vefverslunar með áfengi.

Í bréfi FA er vísað til vefverslana með áfengi, sem hafa byrjað starfsemi að undanförnu. Þar á meðal eru Bjórland, sem selur innlendan bjór, Sante Wines, sem selur einkum innflutt áfengi en einnig innlendar vörur og Nýja vínbúðin, sem selur einnig innlendan bjór í bland við innflutt áfengi. Eftir því sem næst verður komist er Bjórland rekið á íslenskri kennitölu, Sante Wines á franskri og Nýja vínbúðin á breskri. Í öllum tilvikum er varan þó send til neytenda úr innlendum vöruhúsum og afhendingartími er skammur, stundum innan við sólarhringur. Eftir því sem næst verður komist hafa yfirvöld ekki gripið inn í starfsemi þessara netverslana.

Ráðuneytið stuðli að öryggi og fyrirsjáanleika í viðskiptum
„Félagsmenn í Félagi atvinnurekenda, sem eru jafnt framleiðendur sem innflytjendur áfengis, sjá sér eðilega ekki annað fært en að taka þátt í samkeppninni á þessum nýja markaði ef framhald verður á starfsemi netverzlananna.  Sumir hverjir hafa þeir jafnframt fengið fyrirspurnir frá vefverzlunum, sem reknar eru á erlendri kennitölu, um viðskipti. Umrædd fyrirtæki hafa þó verið hikandi að taka þátt í þessum viðskiptum, ekki sízt vegna þess að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins (sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið) hefur gengið fram af talsverðri hörku gegn hinum nýju keppinautum með kærum til löggæzlu- og skattayfirvalda,“ segir í bréfi FA. „Að mati FA er nauðsynlegt, ekki sízt vegna þessarar framgöngu undirstofnunar fjármála- og efnahagsráðuneytisins, að ráðuneytið skýri þær reglur sem um netverzlanir með áfengi gilda og stuðli þannig að öryggi og fyrirsjáanleika í viðskiptum.“

Ráðherra telur viðskiptin lögleg
Í þættinum Dagmálum, sem birtist á mbl.is hinn 21. júlí síðastliðinn og einnig var greint frá í Morgunblaðinu sama dag, lýsti Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra því mati sínu að netverslanir með áfengi störfuðu „innan ramma EES-samstarfsins.“ Jafnframt sagðist hann eiga erfitt með að sjá að netverslun með áfengi stangaðist á við lög og að hann fagnaði netverslun með áfengi, hún væri frábær viðbót.

Vilja starfa innan ramma laga og reglna
Að mati FA er nauðsynlegt, með vísan til framangreindra sjónarmiða um öryggi og fyrirsjáanleika í viðskiptum, að ráðuneytið veiti með formlegum hætti skýr svör um það hvort mat ráðherrans sé mat stjórnsýslunnar og beinir félagið þremur spurningum til ráðuneytisins í bréfi sínu.  Svara við þessum spurningum er óskað innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins, enda eru umtalsverðir hagsmunir í húfi. „Telji fjármála- og efnahagsráðuneytið önnur ráðuneyti betur til þess fallin að svara þessum einföldu spurningum mælist FA eindregið til þess að erindi þetta verði áframsent með hraði og afgreitt fljótt og vel. Eins og áður segir hafa félagsmenn FA áhuga á að taka þátt í þeirri samkeppni sem hafin er í netverzlun með áfengi, en telja mikilvægt að hafa vissu fyrir því að þeir starfi innan ramma laga og reglna og eigi ekki von á inngripum stjórnvalda,“ segir í niðurlagi bréfsins, sem Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri undirritar.

Erindi FA til ráðuneytisins

Nýjar fréttir

Innskráning