Fjögur af tólf stærstu sveitarfélögum landsins munu lækka fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði á næsta ári, samkvæmt frumvörpum til fjárhagsáætlana sem lögð hafa verið fram. Það sætir tíðindum að Reykjavíkurborg hættir að halda skattinum í lögleyfðu hámarki og lækkar hann um 0,05 prósentustig, eða úr 1,65% af fasteignamati í 1,6%. Skatturinn er engu að síður áfram hæstur í Reykjavík af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, eins og sjá má á myndinni hér að ofan. FA hefur komið þeirri afstöðu á framfæri við borgaryfirvöld í Reykjavík að ganga hefði þurft lengra í lækkun skattsins.
Kópavogur lækkar fasteignaskattinn úr 1,49% í 1,47%. Í Mosfellsbæ lækkar skattur á atvinnuhúsnæði úr 1,585% af fasteignamati í 1,56% og í Reykjanesbæ úr 1,6% í 1,55%. Önnur af stærstu sveitarfélögunum halda skattinum óbreyttum eins og sjá má í töflunni hér að neðan.
Seltjarnarnes hefur lengi lagt á lægsta skattinn og haldið álagningarprósentunni í 1,1875%, en á það ber að líta að atvinnueignir eru fáar á Nesinu og framboð af nýjum atvinnulóðum lítið sem ekkert. Hafnarfjörður og Akranes leggja á lægsta skatinn á Suðvesturhorninu fyrir utan Seltjarnarnes, eða 1,4% af fasteignamati og hafa lagt áherslu á að laða að sér ný fyrirtæki. Eins og sjá má í töflunni munu tekjur af fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði hækka í öllum sveitarfélögunum þrátt fyrir lækkun skattprósentu, nema í Reykjavík þar sem tekjurnar munu dragast saman um 2,4%.
Stjórn FA beindi því til sveitarfélaganna síðastliðið sumar að lækka fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði til að auðvelda fyrirtækjum að komast út úr kórónuveirukreppunni. „Við fögnum því að sjálfsögðu að sum af sveitarfélögunum hafa brugðist við þessari áskorun og lækkað skatta, þótt við teljum að sum þeirra, alveg sérstaklega Reykjavíkurborg, mættu gera betur,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmastjóri FA. „
Barátta gegn gegndarlausum hækkunum á fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði hefur verið eitt af aðalbaráttumálum FA frá árinu 2016. Félagið hefur síðan sent sveitarfélögum, þar sem aðildarfyrirtæki félagsins starfa, fjölda erinda og áskorana um lækkun á álagningarhlutfalli fasteignaskatts til að mæta fordæmalausum hækkunum fasteignamatsins, safnað gögnum um skattlagninguna og vakið athygli á stöðunni með fundahöldum og samstarfi við önnur hagsmunasamtök. Árangurinn má sjá í neðri töflunni. Níu sveitarfélög af tólf hafa lækkað álagningarprósentuna. Mesta breytingin hefur orðið í Hafnarfirði og á Akranesi, þar sem álagningarhlutfallið hefur lækkað um tæplega sjöttung, eða 15,5%. Fjarðabyggð er eina sveitarfélagið af þeim tólf stærstu sem innheimtir enn hæsta lögleyfða fasteignaskatt. Í Vestmannaeyjum var skatturinn hækkaður upp í 1,65% fyrir árið 2017 en lækkaður aftur fyrir árið í ár og verður áfram 1,55% af fasteignamati.