Gildistaka tollasamnings við ESB dregst til áramóta

29.03.2017

Gildistaka tollasamnings Íslands og Evrópusambandsins, sem gerður var haustið 2015, dregst að öllum líkindum til næstu áramóta, samkvæmt upplýsingum sem Félag atvinnurekenda hefur aflað hjá utanríkisráðuneytinu.

Á sínum tíma var gert ráð fyrir að samningurinn gæti tekið gildi í byrjun þessa árs. Undanfarið hefur verið miðað við að hann tæki gildi á miðju ári en nú stefnir í að gildistakan verði ekki fyrr en öðru hvoru megin við áramót.

Samningurinn var undirritaður formlega í síðustu viku, en samkvæmt þeim upplýsingum sem FA hefur aflað sér eru tafir á fullgildingarferli hans hjá Evrópuþinginu.

Strax við gildistöku samningsins munu ýmsar matvörur lækka talsvert í verði þar sem tollar af þeim verða lækkaðir eða felldir niður. Þar má nefna pitsur, bökur, fyllt pasta, súkkulaði, bökunarvörur, villibráð, franskar kartöflur og útiræktað grænmeti.

Með samningnum voru jafnframt stækkaðir tollfrjálsir innflutningskvótar fyrir osta og kjötvörur. 210 tonna aukinn tollkvóti fyrir upprunaverndaða osta frá Evrópusambandinu, sem átti að taka gildi í áföngum, mun allur taka gildi strax við gildistöku tollasamningsins. Þessum ostakvóta verður úthlutað með hlutkesti, samkvæmt ákvörðun Alþingis, en ekki með uppboði eins og tíðkast hefur. Þessi breyting felur einnig í sér aukið úrval og lægra verð fyrir neytendur.

Stækkun á ESB-tollkvótum 2018-2021

Núv. kvóti 1. ár 2. ár 3. ár 4. ár Kvóti 2021
Nautakjöt 100 tonn 149 149 149 149 696 tonn
Svínakjöt 200 tonn 250 250     700 tonn
Alifuglakjöt 200 tonn 328 328     856 tonn
Lífrænt alifuglakj. 0 tonn 100 100     200 tonn
Pylsur 50 tonn 100 100     250 tonn
Unnar kjötvörur 50 tonn 120 120 110   400 tonn
Skinka 50 tonn 50       100 tonn
Ostur 80 tonn 75 75 75 75 380 tonn
Ostur (upprunav.) 20 tonn 210       230 tonn

Betra svigrúm til að breyta úthlutun tollkvóta
„Það eru slæmar fréttir fyrir neytendur að gildistakan frestist, því að þessi samningur er mikið hagsmunamál þeirra,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Fyrir innflytjendur er þetta líka bagalegt því að þeir voru byrjaðir að skipuleggja innkaup og birgðahald með hliðsjón af því að samningurinn tæki gildi um mitt ár.“

Ólafur segir að nú gefist hins vegar betra svigrúm til að undirbúa nýtt fyrirkomulag á úthlutun tollkvóta, sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og fjármálaráðherra hafa lýst yfir að eigi að taka mið af hagsmunum neytenda. „Það stendur til að leggja af útboð tollkvóta í núverandi mynd. Það kerfi er í fyrsta lagi ólögmætt og í öðru lagi hefur það leitt af sér gríðarlega hátt verð á kvótanum, sem í ýmsum tilvikum étur upp allan ávinning neytenda af tollfrelsinu. Nú ætti að vera tryggt að það verði úr sögunni þegar tollasamningurinn kemur til framkvæmda. Fyrir vikið ætti verðlækkunin á innfluttu vörunni að verða enn meiri loksins þegar samningurinn tekur gildi,“ segir Ólafur.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning