Gildistaka tollasamnings við ESB gæti tafist

05.09.2016

MatarkarfaLíklegt er að tollasamningur Íslands og ESB taki ekki gildi fyrr en einhverjir mánuðir verða liðnir af árinu 2017, jafnvel ekki fyrr en um mitt ár, samkvæmt upplýsingum sem Félag atvinnurekenda hefur aflað sér hjá stjórnvöldum.

Þegar samningurinn var undirritaður fyrir tæpu ári kom fram í fréttatilkynningu stjórnvalda að vonir stæðu til að hann tæki gildi „í árslok 2016 eða byrjun árs 2017, að fenginni staðfestingu stofnana ESB og Íslands.“ Margir hafa gengið út frá því að samningurinn gæti tekið gildi um áramótin, þar með taldir innflytjendur matvöru, sem hafa búist við að tollalækkanir samkvæmt samningnum gætu tekið gildi um áramótin.

Nú virðist hins vegar ósennilegt að samningurinn taki gildi um áramót. Stefnt er að staðfestingu hans fyrir Íslands leyti á Alþingi á næstu vikum, en fullgildingarferlið hefur dregist hjá Evrópusambandinu. Framkvæmdastjórnin hefur aðeins nýlega gert tillögu til ráðherraráðs ESB um samþykkt samningsins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem FA hefur aflað sér má gera ráð fyrir að ráðherraráðið taki sér fjórar til sex vikur til að staðfesta samninginn. Að því loknu þarf Evrópuþingið að fjalla um samninginn og að fenginni reynslu er talið að það geti tekið einhverja mánuði.

Slæmar fréttir fyrir neytendur
„Það eru vissulega slæmar fréttir fyrir neytendur að samningurinn taki ekki gildi strax um áramót, því að ýmsar matvörur munu lækka talsvert í verði strax við gildistökuna þar sem tollar af þeim verða lækkaðir eða felldir niður. Þar má nefna pitsur, bökur, fyllt pasta, súkkulaði, bökunarvörur, villibráð, franskar kartöflur og útiræktað grænmeti,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.

Með samningnum voru jafnframt stækkaðir tollfrjálsir innflutningskvótar fyrir osta og kjötvörur. Af hálfu formanns atvinnuveganefndar Alþingis hefur því verið lýst yfir að nefndin muni sjái til þess að 210 tonna aukinn tollkvóti fyrir upprunaverndaða osta frá Evrópusambandinu, sem átti að taka gildi í áföngum, muni allur taka gildi strax við gildistöku tollasamningsins.

„Hér eru miklir hagsmunir í húfi fyrir neytendur. Innflytjendur matvöru þurfa jafnframt að fá góðar upplýsingar um hvenær líklegt er að tollasamningurinn geti tekið gildi, þannig að þeir geti hagað skipulagi innkaupa og birgðahaldi eftir því. Við hvetjum stjórnvöld því til þess annars vegar að þrýsta á að staðfestingarferli tollasamningins hjá Evrópusambandinu gangi sem hraðast fyrir sig og jafnframt að veita innflytjendum og samtökum þeirra góðar upplýsingar um ganginn í ferlinu,“ segir Ólafur.

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning