Félag atvinnurekenda hefur sent Degi B. Eggertssyni borgarstjóra erindi og lýst áhyggjum sínum af því að engin úrræði virðist í boði fyrir atvinnufyrirtæki sem þurfa að víkja af lóðum sínum vegna þess að verið er að breyta grónum atvinnuhverfum í borginni í blandaða íbúða- og atvinnubyggð. Tekið er dæmi af fyrirtæki sem þarf að víkja úr Vogabyggð vegna breytts skipulags, en rekur sig alls staðar á veggi þegar leitað er eftir nýrri lóð sem hentar. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu borgarstjóra verður erindið tekið fyrir á fundi borgarráðs á morgun, fimmtudag.
Í bréfinu, sem sent var 8. apríl síðastliðinn, segir að til FA hafi leitað félagsmenn sem margir hverjir veiti forstöðu grónum atvinnufyrirtækjum og hafi áhyggjur af framtíðinni vegna breytinga í skipulagi. „Stefnan um þéttingu byggðar er skynsamleg og stuðlar að öflugra, hagkvæmara og lífvænlegra borgarsamfélagi. Hún hefur þó af hálfu borgaryfirvalda fyrst og fremst verið sett fram á forsendum þróunar íbúabyggðar. Þarfir og hagsmunir atvinnulífsins hafa ekki verið í forgrunni,“ segir í bréfi FA. Þar er bent á að að liggi þó alveg ljóst fyrir að blómleg borg þrífist ekki án öflugs atvinnulífs. Gera verði ráð fyrir þörfum þess í borgarskipulaginu ekki síður en þörfum borgarbúa fyrir íbúðarhúsnæði.
Rifjað er upp að áformuð sé umfangsmikil uppbygging íbúðarhúsnæðis og breyting á landnotkun í hverfum á borð við Vogabyggð, Skeifuna-Mörkina, Múlana-Suðurlandsbraut og ofanverðan Laugaveg. „Í sumum þessara hverfa hafa verið kynnt af hálfu borgaryfirvalda áform um mikla umbreytingu, sem í einhverjum tilvikum þýðir að vegna eðlis starfsemi sinnar verði rótgróin fyrirtæki að víkja. Þess eru dæmi að eigendur fyrirtækja frétti það utan að sér að atvinnuhúsnæði þeirra eigi að víkja fyrir íbúðarhúsnæði, án þess að hafa nokkuð heyrt um það formlega frá borgaryfirvöldum. Fyrirtækin í viðkomandi hverfum hafa ekki fengið neina heildstæða kynningu á því hvaða úrræði önnur eru þá í boði fyrir þau og hvernig Reykjavíkurborg hyggist standa að uppbyggingu hentugra atvinnulóða til að mæta umbyltingu gamalgróinna atvinnuhverfa.“
Engin úrræði fyrir lykilfyrirtæki
Í bréfinu er tekið dæmi af Vörubíla- og vinnuvélaverkstæðinu, fyrirtæki í Vogabyggð, sem mun þurfa að víkja vegna breytinga á skipulagi með mikilli fjölgun íbúða. Fyrirtækið þjónustar bíla- og eftirvagnaflota allra helstu landflutningafyrirtækja. „Fjárhagslegir og umhverfislegir kostir þess fyrir fyrirtækið, viðskiptavini þess og borgarbúa að fyrirtækið sé staðsett nálægt aðalflutningahöfn landsins er augljósir og þarf ekki að skýra nánar,“ segir í bréfi Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA til borgarstjóra. Það er síðan rakið, m.a. í fylgiskjölum, hvernig fyrirtækið hefur leitað fyrir sér um nýja lóð en engin úrræði fundist.
„Á meðal félagsmanna í Félagi atvinnurekenda er uppi krafa um að Reykjavíkurborg kynni betur áform sín um uppbyggingu og framboð atvinnulóða til að mæta þeirri stöðu sem mörg fyrirtæki lenda fyrirsjáanlega í vegna breytts skipulags. Vinnubrögð á borð við þau sem Vörubíla- og vinnuvélaverkstæðið hefur mætt eru ekki boðleg,“ segir í bréfinu. „Félag atvinnurekenda óskar eftir því að Reykjavíkurborg veiti fyrirtækjum á þeim svæðum, sem um ræðir, að fyrra bragði betri og ýtarlegri upplýsingar um hvaða kostir eru í boði ef starfsemi þeirra samrýmist ekki umbreytingu hverfanna og uppbyggingu íbúðabyggðar.“
Viðtal við Ólaf Stephensen á Bylgjunni