Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, á vef Mannlífs 1. maí 2019.
Íslenzka vinnumarkaðsmódelið – hvernig atvinnurekendur og launþegar nálgast það að semja um kaup og kjör – hefur verið týnt í nokkur ár. Það er ekki úr vegi að velta því fyrir sér á baráttudegi verkalýðsins hvort horfur hafi farið batnandi á að það finnist aftur.
Þjóðarsátt tók við af kollsteypum
Áratugum saman var ekki nokkurt einasta vit í kjaraviðræðum á íslenzkum vinnumarkaði. Samið var um nafnlaunahækkanir sem engin innistæða var fyrir hjá atvinnulífinu og allir vissu að myndu ekki skila sér til launafólks. Þrátt fyrir að vera stundum upp á tugi prósenta, brunnu þær upp í gengisfellingum og óðaverðbólgu.
Breyting varð á þessu með þjóðarsáttarsamningunum 1990, þegar tókst að ná saman um hóflegar launahækkanir og ná verðbólgunni niður í eins stafs tölu. Það sem ekki tókst að breyta var að opinberir starfsmenn fengu áratugina á eftir almennt talsvert meiri launahækkanir en fólk á almennum vinnumarkaði. Óhætt er að segja að sú þróun hafi farið úr böndunum á árunum 2014-2015 þegar opinberir starfsmenn knúðu fram launahækkanir sem settu allan vinnumarkaðinn á annan endann.
Stefnt að norræna módelinu
Með SALEK-samkomulaginu svokallaða 2015 því átti að reyna að innleiða nýtt vinnumarkaðsmódel að norrænni fyrirmynd. Ástæða þess að aðilar vinnumarkaðarins og ríkið skrifuðu undir SALEK var að menn sáu að það gekk ekki upp að samtök opinberra starfsmanna yrðu leiðandi í launahækkunum á vinnumarkaði. Að baki þeirri vissu liggur sú einfalda staðreynd að einkageirinn stendur undir rekstri opinbera geirans. Ef fyrirtækin ganga ekki nógu vel til að greiða starfsfólki sínu hærri laun, er fráleitt að þau og starfsmenn þeirra fjármagni launahækkanir opinberra starfsmanna.
Segja má að með SALEK hafi menn hafi sætt sig við orðinn hlut – að samið hefði verið um of miklar hækkanir við opinbera starfsmenn og bæta yrði stéttarfélögum á almenna markaðnum það upp – en jafnframt ákveðið að læra af mistökunum og taka upp ný vinnubrögð.
Hagur atvinnulífsins ráði
Samkomulagið kvað líka á um að bæta ætti þekkingu og vinnubrögð við undirbúning og gerð kjarasamninga með Norðurlöndin sem fyrirmynd. Markmiðið var að auka kaupmátt á grundvelli lágrar verðbólgu, lágra vaxta og stöðugs gengis. „Á hinum Norðurlöndunum hefur tekist að auka kaupmátt tvisvar sinnum meira á ári síðustu 15 árin en hér á landi. Auk þess er samkomulaginu ætlað að stuðla að friði á vinnumarkaði og auknum stöðugleika,“ sagði í kynningu ASÍ á samkomulaginu.
Meiningin var að reyna að greina hver framleiðniaukningin væri í hagkerfinu og við hvaða launahækkanir útflutningsgreinarnar réðu, og láta svo launastefnuna almennt ráðast af því – eins og gerist í öðrum norrænum ríkjum.
Raunveruleikatenging með falli WOW
SALEK stóð frá upphafi veikum fótum vegna þess að hluti samtaka opinberra starfsmanna vildi ekki skrifa undir það og taldi sig ekki fá nóg út úr því. Úrskurðir kjararáðs um laun embættismanna vorið 2017 greiddu því svo náðarhöggið. Þar við bættist að til valda í verkalýðshreyfingunni komust nýir forystumenn, sem töluðu á þann veg að það væri ekki geta atvinnuveganna til að greiða laun sem ætti að ráða launahækkunum, heldur þeirra eigin skilgreining á hvað fólk þyrfti að fá í laun til að ná endum saman.
Um tíma leit út fyrir að við værum að fara aftur í sama gamla farið, þar sem vinnuveitendur sæju sig tilneydda að semja um launahækkanir sem ekki væri innstæða fyrir og yrðu hafðar af launþegum með verðhækkunum og gengislækkun. Fall WOW air varð hins vegar til þess að veruleikatengja kjaraviðræðurnar býsna snögglega – fólk sá að greinin, sem verkfallsaðgerðir stéttarfélaga höfðu beinzt að, ferðaþjónustan, hafði fengið stóran skell. Niðurstaðan, lífskjarasamningurinn svokallaði, er að mörgu leyti miklu fremur í anda SALEK-samkomulagsins en hinna digru yfirlýsinga nýrrar verkalýðsforystu fyrir nokkrum mánuðum.
Sanngjörn skipting, lágir vextir og verðbólga
Þannig kveður samningurinn á um hóflegar launahækkanir, þótt vissulega fái þeir lægst launuðu drjúga hækkun í prósentum talið. Í honum er jafnframt bein tenging á milli launahækkana og gengis atvinnulífsins – ef hagvöxtur fer yfir tiltekin mörk, hækka laun meira en ella. Þannig er samið um sanngjarna skiptingu ávinningsins af rekstri fyrirtækjanna á milli eigenda þeirra og launþega. Á meðal markmiða samningsins er verðlagsstöðugleiki. Samtök atvinnurekenda og launþega hafa staðið saman að því að hvetja fyrirtæki eindregið til að halda verðhækkunum í skefjum eftir að samningurinn var gerður. Lífskjarasamningurinn á líka að stuðla að vaxtalækkun. Seðlabankastjórinn benti á það í grein í Morgunblaðinu í vikunni að verðbólguvæntingar – sem höfðu rokið upp eftir að kröfugerð stéttarfélaga varð opinber – hefðu aftur tekið dýfu eftir að samningurinn var gerður. Þess vegna væri nú svigrúm til vaxtalækkunar.
Þetta er mun jákvæðari mynd af ástandi efnahagslífsins en margir þorðu að vona fyrir fáeinum vikum. Það er ekki þar með sagt að nýtt vinnumarkaðsmódel sé fundið – en það grillir mögulega í útlínur þess. Ýmislegt getur komið í veg fyrir að það finnist, til dæmis að þau stéttarfélög á almenna markaðnum sem eiga eftir að semja, geri óraunhæfar kröfur sem þau fylgi eftir með verkfallsaðgerðum, eða að opinberir starfsmenn vilji hefja nýtt „höfrungahlaup“ sem leiðir okkur í enn einar ógöngurnar. Það er heldur ekki hægt að útiloka að einhvers staðar í stórfyrirtækjunum leynist enn sú ranghugmynd að það sé sniðugt að hækka forstjóra eða stjórnarmenn í launum um nokkur hundruð þúsund eftir að aðrir hafa fengið sautjánþúsundkall. Við skulum samt vona ekki.
Sameiginlegir hagsmunir
Ég leyfi mér að efast um að nokkur hafi skrifað á kröfuspjaldið sitt í dag „Við viljum nýtt SALEK-samkomulag“. Það er samt alveg ástæða til að ræða hvernig við þokum okkur aftur í átt að nýju vinnumarkaðsmódeli í norrænum stíl. Það er alveg áreiðanlega hagstæðara hagsmunum jafnt launafólks og atvinnurekenda en gamla kollsteypuaðferðin.