Hækkun fasteignamats þýðir þriggja milljarða skattahækkun á fyrirtækin

01.06.2022

Mikil hækkun á fasteignamati, sem tilkynnt var í gær, hefur að óbreyttu í för með sér þriggja milljarða króna hækkun á fasteignasköttum af atvinnuhúsnæði. Stjórn Félags atvinnurekenda sendi sveitarfélögum landsins í gær áskorun um að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði til að mæta hækkunum á matinu. Þrátt fyrir að sum sveitarfélög hafi lækkað álagningarprósentu, hækkuðu fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði um 70% frá 2015, þegar núverandi aðferð við fasteignamat var fyrst beitt, og fram til síðasta árs. 

Ályktun stjórnar FA er eftirfarandi: 

„Stjórn Félags atvinnurekenda ítrekar áskoranir sínar til sveitarfélaga að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði við gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár til að bregðast við miklum hækkunum fasteignamats fyrir árið 2023.

Samkvæmt nýbirtu fasteignamati er hækkun mats atvinnuhúsnæðis 10,2% á landinu öllu; 9,6% á höfuðborgarsvæðinu og 11,5% á landsbyggðinni. Án breytinga á álagningarprósentunni þýðir þetta samsvarandi skattahækkun á fyrirtækin.

FA bendir á að frá því að núverandi tekjumatsaðferð var tekin upp við útreikning fasteignamats atvinnuhúsnæðis fyrir árið 2015 og fram til ársins 2021 hefur álagður fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði á landinu hækkað úr tæplega 17 milljörðum króna á ári í um 28,8 milljarða, eins og sjá má á myndinni hér að neðan – þrátt fyrir breytingar sumra sveitarfélaga á álagningarprósentu. Skattbyrði fyrirtækjanna hefur með öðrum orðum þyngst um 11,8 milljarða eða tæplega 70%. Verði ekki gerðar breytingar á skattprósentunni fyrir næsta ár munu tæpir þrír milljarðar bætast við skattbyrði atvinnulífsins og hækkunin frá 2014 til 2022 nemur þá um 87%.

Heimild: Þjóðskrá, Árbók sveitarfélaga

 

Að mati FA verður ekki við þessa þróun unað. Mörg fyrirtæki eru að rétta úr kútnum eftir kórónuveirukreppuna. Gífurlegar hækkanir á aðföngum gera fjölda fyrirtækja erfitt fyrir og þau þurfa að leita allra leiða til að velta þeim ekki út í verðlag. Engu að síður er verðbólgan sú hæsta í mörg ár. Framundan eru afar erfiðar kjaraviðræður. Þriggja milljarða skattahækkun sveitarfélaganna er ekki það sem atvinnulífið þarf á að halda við þessar aðstæður. 

Stjórn FA telur að hér verði hvert og eitt sveitarfélag að sýna ábyrgð og gera breytingar á sinni álagningarprósentu þannig að hækkanir á fasteignasköttum skaði ekki atvinnulífið í landinu meira en orðið er. Sveitarstjórnarmenn geta ekki firrt sig ábyrgð og látið „sjálfkrafa“ hækkanir á sköttum renna umræðulaust í sjóði sveitarfélaganna.

FA skorar jafnframt á sveitarfélögin að taka upp viðræður hið fyrsta við ríkisvaldið um breytingar á þessu fráleita kerfi þar sem skattgreiðslur af atvinnuhúsnæði eru beintengdar við þróun fasteignamats og taka þannig sífelldum hækkunum, án nokkurs tillits til gengis atvinnulífsins að öðru leyti.“

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning