Hæstiréttur fellst ekki á ólögmæti snakktolls

18.02.2016

PringlesHæstiréttur felldi í dag dóma í málum þriggja fyrirtækja sem létu reyna á lögmæti 59% tolls á innflutt kartöflusnakk. Dómur héraðsdóms, þar sem ríkið var sýknað af kröfu fyrirtækjanna um endurgreiðslu á tollinum, var staðfestur. Tollurinn verður hins vegar afnuminn um næstu áramót, samkvæmt ákvörðun Alþingis í desember.

Ríkið hélt því fram fyrir dómi að tollurinn væri ætlaður til almennrar tekjuöflunar, en væri ekki verndartollur fyrir innlenda framleiðslu. Ríkið gat hins vegar engar skýringar gefið á því hvers vegna þessi tiltekna útgáfa af snakki ætti að vera sérstök tekjulind og hvers vegna gjaldtakan væri svona há. Viðbrögðin við áformum um afnám snakktollsins í lok síðasta árs sýndu hins vegar svo ekki varð um villst að innlendir snakkframleiðendur litu á hann sem verndartoll. Hæstiréttur tók í niðurstöðu sinni fram að gjaldtakan rúmaðist innan fjárstjórnarvalds ríkisins.

„Þetta mál er í raun allt hið ótrúlegasta. Eftir 20 ára gjaldtöku kannast ríkið allt í einu ekki við að þetta sé verndartollur. Ríkið segist vera að afla sér tekna með almennum hætti og að það sé bara tilviljun að himinhár tollur upp á 59% lenti á einni einstakri vöru,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Á sama tíma er ljóst að þessi tollur verndar engan íslenskan landbúnað og að engar kartöflur, innlendar eða innfluttar, eru í íslensku snakki. Þetta er augljóslega ekki almenn gjaldtaka og henni er augljóslega ætlað að vernda innlenda verksmiðjuframleiðslu, undir yfirskini tollverndar fyrir búvöruframleiðslu. Það er erfitt að sætta sig við þá niðurstöðu Hæstaréttar að þetta sé í lagi.“

Hagar, Ölgerðin Egill Skallagrímsson og Innnes létu reyna á lögmæti snakktollsins fyrir dómi. Páll Rúnar Mikael Kristjánsson hæstaréttarlögmaður var lögmaður fyrirtækjanna. „Markmið umbjóðenda minna var að hnekkja gjaldtöku sem hefur kostað neytendur 160 miljónir á ári. Það er ljóst að sú gjaldtaka er nú úr sögunni frá og með 1. janúar næstkomandi. Það hefði hins vegar verið gott að fá dóm Hæstaréttar um ólögmæti þessarar gjaldtöku. Fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að svona rugl eigi sér stað aftur. Svo varð því miður ekki,“ segir Páll Rúnar.

Dómur Hæstaréttar í máli Ölgerðarinnar gegn ríkinu

Nýjar fréttir

Innskráning