Hagnýt lögfræði í rekstri fyrirtækja – örnámskeiðaröð FA

15.02.2022
Unnur Ásta og Páll Rúnar.

Félag atvinnurekenda efnir á næstu vikum til fimm örnámskeiða fyrir félagsmenn um hagnýta lögfræði í fyrirtækjarekstri. Með þessu er verið að bregðast við fyrirspurnum og ábendingum félagsmanna, sem nefndu m.a. í þjónustukönnuninni okkar á dögunum að þeir vildu fá meiri fræðslu um lögfræðileg mál í rekstrinum.

Námskeiðin verða stutt vefnámskeið, haldin á Zoom með svokölluðu 20+10-fyrirkomulagi; 20 mínútna fyrirlestur og svo tíu mínútur til að svara spurningum og ábendingum. Þannig er markmiðið að stjórnendur þurfi ekki að taka sér meira en hálftíma í hvert námskeið. Námskeiðin henta framkvæmdastjórum, mannauðsstjórum og fleiri stjórnendum. Þau eru opin félagsmönnum í FA og haldin kl. 10-10.30.

Um námskeiðin sjá Unnur Ásta Bergsteinsdóttir, lögmaður hjá MAGNA lögmönnum, og Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður FA, sem einnig starfar hjá MAGNA.

Tímasetningar
Eftirfarandi örnámskeið verða haldin:

22. febrúar Skyldur atvinnurekenda til að tryggja öruggt starfsumhverfi
15. mars     Hverju þarf að gæta að við gerð ráðningarsamninga?
5. apríl        Samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum
26. apríl      Samningar við birgja
10. maí       Samskipti og samningar við neytendur

Hvert námskeið verður kynnt með góðum fyrirvara þannig að félagsmenn geti skráð sig.

Skyldur atvinnurekenda til að tryggja öruggt starfsumhverfi
Fyrsta námskeiðið verður haldið eins og áður segir 22. febrúar og fjallar um skyldur atvinnurekenda til að tryggja öruggt starfsumhverfi. Um þau mál hefur talsvert verið fjallað að undanförnu m.a. vegna mála sem varða kynferðislega áreitni eða ofbeldi.

Á námskeiðinu fer Unnur Ásta Bergsteinsdóttir m.a. yfir kröfur laga um að atvinnurekendur séu vakandi fyrir því að skapa starfsmönnum sínum öruggt og gott starfsumhverfi. Fjallað verður um fræðslu sem atvinnurekendum ber að veita starfsfólki, áhættumat og gerð viðbragðsáætlana, siða- og starfsreglur á vinnustað og jafnréttislöggjöfina.

Hægt er að skrá sig á námskeiðið hér að neðan. Skráðir félagsmenn fá svo sendan hlekk til að taka þátt í námskeiðinu með góðum fyrirvara.

Fyrirlesarar
Unnur Ásta Bergsteinsdóttir er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum. Hún er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og er í hópi eigenda MAGNA lögmanna. Meira um Unni Ástu

Pál Rúnar M. Kristjánsson þarf varla að kynna fyrir félagsmönnum, en hann hefur verið lögmaður FA undanfarin 14 ár. Páll hefur langa reynslu af ráðgjöf við fyrirtæki og málflutningi í ýmsum stærstu málum sem fyrirtæki hafa höfðað á hendur íslenska ríkinu. Meira um Pál Rúnar

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning