Heimild til að tvískipta gjalddögum aðflutningsgjalda framlengd út árið

29.03.2016

Gamar minniEfnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur lagt fram frumvarp, í framhaldi af ábendingum Félags atvinnurekenda, sem framlengir heimild til að tvískipta gjalddögum aðflutningsgjalda út árið. Heimildin rann út um áramót, þrátt fyrir fyrirheit stjórnvalda um að hún fengi að halda sér þar til endurskoðun gjaldfresta hefði farið fram í tengslum við heildarendurskoðun virðisaukaskattskerfisins.

Heimildin hefur verið til staðar í lögum allt frá haustinu 2008, en þá var henni komið á vegna þess að mörg fyrirtæki lentu í greiðsluerfiðleikum. Heimildin þýðir að hefðbundnum gjalddögum aðflutningsgjalda er dreift á tvo gjalddaga. Síðari helmingi aðflutningsgjalda skal skilað eigi síðar en á 5. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Einnig hefur verið séð til þess að þetta fyrirkomulag skerði ekki heimild til að færa til innskatts allan virðisaukaskatt viðkomandi tímabils þótt einungis hluti hans hafi verið greiddur.

Heildarendurskoðun í farvatninu
Bráðabirgðaákvæði í tollalögum og lögum um virðisaukaskatt, sem kveða á um þessa heimild, hafa verið framlengd tímabundið með reglubundnum hætti. Í greinargerð með frumvarpi efnahags- og viðskiptanefndar segir: „Í ljósi betri stöðu íslensks efnahagslífs og þess að ekki hafði verið farið fram á frekari framlengingu rann reglan sitt skeið á enda við lok ársins 2015 og við tóku ákvæði 122. gr. tollalaga. Fyrsti gjalddagi aðflutningsgjalda aðila sem njóta greiðslufrests á árinu 2016 er 15. mars 2016. Fyrirtæki, og þá einkum hin minni, virðast ekki hafa gert sér grein fyrir afleiðingum þess að bráðabirgðareglan rann sitt skeið á enda. Í mörgum tilvikum virðast þau illa undirbúin til að takast á við að þurfa að greiða aðflutningsgjöld á greiðslufresti í einu lagi. Endurskoðun gjalddaga og greiðslufresta skatta og gjalda er í farvatninu með samræmingu að leiðarljósi.“

Þegar í ljós kom við uppgjör virðisaukaskatts fyrir janúar og febrúar að heimildin var fallin úr gildi skrifaði Félag atvinnurekenda fjármálaráðuneytinu og benti á að við síðustu framlengingu heimildarinnar hefði verið vísað til þess að hún yrði áfram í gildi þar til endurskoðun gjaldfresta og virðisaukaskattkerfisins í heild væri lokið. Í greinargerð með frumvarpi nefndarinnar kemur hins vegar fram að þetta verði síðasta framlengingin, hvað sem þeirri endurskoðun líði: „Þó að samræming gjalddaga sé í farvatninu er allt að einu rétt að gera ráð fyrir því að bráðabirgðareglan renni sitt skeið endanlega á árinu 2016.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, bendir á að innflutningsfyrirtæki séu sum hver enn ekki búin að bíta úr nálinni með afleiðingar hrunsins, til dæmis hvað varðar gjaldfresti hjá erlendum birgjum. Heimildin hafi því komið sér vel fyrir marga birgja. „FA mun beita sér fyrir því að tvískiptingin verði lögfest til frambúðar og að endurskoðun gjaldfresta, sem hefur verið í farvatninu hjá stjórnvöldum árum saman, verði hraðað,“ segir Ólafur.

Vonast er til að frumvarpið verði að lögum fyrir lok næsta uppgjörstímabils virðisaukaskatts í lok apríl.

Frumvarp efnahags- og viðskiptanefndar

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning