Hversu lengi ætlar ríkið að streitast á móti innflutningi á fersku kjöti?

18.11.2016

IMG_0119Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt þann dóm að innflutningsbann á fersku kjöti sé ólöglegt og fari í bága við EES-samninginn. Þetta er í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, sem dæmdi á sama veg í febrúar síðastliðnum í máli Ferskra kjötvara gegn ríkinu. Þrátt fyrir að legið hafi fyrir árum saman að bannið væri skýrt brot á EES-reglum streitist íslenska ríkið á móti fyrir dómstólum.

Í dómi héraðsdóms kemur meðal annars fram að þar sem sömu reglur um heilbrigðiseftirlit gildi í öðrum ríkjum EES og á Íslandi, sé íslenskum stjórnvöldum óheimilt að beita öðrum innflutningshömlum gagnvart fersku kjöti en svokölluðum stikkprufum. „Innflytjandi hrás ófrysts kjöts, hvort heldur einstaklingur eða lögaðili, þarf ekki að sæta öðru skipulögðu og reglubundnu eftirliti með því að skilyrðum fyrir innflutningi sé fullnægt en eftirliti á sendingarstað. Reglur sem mæla fyrir um skipulegt og reglubundið eftirlit á viðtökustað eru óheimilar í ljósi ákvæða tilskipunarinnar. Skipulagt og reglubundið eftirlit á viðtökustað var óheimilt og verður ekki réttlætt á grundvelli 18. gr., sbr. 13. gr. EES-samningsins,“ segir í dómnum.

Vísvitandi brot
Þá rekur dómurinn að það liggi fyrir að ríkisstjórn Íslands hafi í tvígang lagt fram á Alþingi frumvörp til laga, sem ætlað var að innleiða tilskipun nr. 89/662EBE, sem heimilar flutning á fersku kjöti milli aðildarríkja EES, í íslenskan rétt. Þau frumvörp hafi ekki orðið að lögum, en Alþingi hafi síðan samþykkt frumvarp Jóns Bjarnasonar landbúnaðarráðherra, þar sem heimild til innflutnings á fersku kjöti var felld út.

„Ganga verður út frá því, svo sem athugasemdir með frumvarpinu bera með sér, að íslensk stjórnvöld hafi verið þess fullmeðvituð að með því að samþykkja frumvarpið á þann veg og með ákvæðum reglugerðar nr. 448/2012, væri ekki verið að innleiða EES-rétt í íslenskan rétt með fullnægjandi hætti. Er einnig til þess að líta að Eftirlitsstofnun EFTA hafði þegar á árinu 2011 kvartað við íslensk stjórnvöld yfir innflutningsbanni á hráu kjöti og komist að niðurstöðu um brot á skuldbindingum að EES-rétti á árinu 2013. Í þessu ljósi var um vísvitandi og alvarlegt brot á samningsskuldbindingum íslenskra stjórnvalda að ræða, sem leiddi til tjóns fyrir stefnanda, sem greitt hafði fyrir kjötið og flutning þess hingað til lands. Er orsakasamband því jafnframt til staðar,“ segir í dómnum.

Ríkið dregur enn lappirnar
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að dómurinn hafi fallið nákvæmlega eins og við mátti búast. „Það hefur legið fyrir árum saman að Ísland undirgekkst þessar reglur án þess að biðja um nokkrar undanþágur og að innflutningsbannið er skýrt ásetningsbrot íslenskra stjórnvalda á EES-samningnum. Það eina sem vekur furðu er að íslenska ríkið dragi enn lappirnar og valdi jafnt innflytjendum kjötvöru og neytendum tjóni með því að bregðast ekki við og fella bannið úr gildi. Það er ekki eftir neinu að bíða með það.“

Nýjar fréttir

Innskráning