Íslandspóstur stöðvaður í að bola keppinautum af póstmarkaði

30.06.2017

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) tók í morgun bráðabirgðaákvörðun, þar sem frestað er gildistöku ákvörðunar Íslandspósts um að fella niður viðbótarafslætti hjá söfnunaraðilum á póstmarkaði. Söfnunaraðilar eru fyrirtæki á borð við Burðargjöld og Póstmarkaðinn, sem safna pósti frá stórnotendum og miðla áfram til Íslandspósts, sem hefur einkarétt á dreifingu bréfa undir 50 grömmum.

Félag atvinnurekenda fagnar ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar, enda telur félagið að hefði uppsögn afsláttanna fengið að standa, hefði það haft gríðarlega neikvæð áhrif á samkeppni á póstmarkaði. Rekstrargrundvellinum hefði verið kippt undan starfsemi söfnunaraðila, þeir hefðu neyðst til að segja upp öllum sínum viðskiptasamningum og hætta starfsemi. Viðskipti þeirra hefðu fallið ríkisfyrirtækinu Íslandspósti sjálfu í skaut.

Ákvörðun Íslandspósts um að fella niður afslætti söfnunaraðila var tilkynnt þeim bréflega 7. apríl síðastliðinn og greint frá því að afslættirnir myndu falla úr gildi 1. september. Félag atvinnurekenda hefur síðan, bæði bréflega og á fundi með stjórnendum Íslandspósts, skorað á fyrirtækið að falla frá þessari ákvörðun, enda væri hún bæði ólögmæt og stórskaðleg samkeppni. Stjórnendur Íslandspósts héldu engu að síður sínu striki.

Skýr niðurstaða eftirlitsstofnana
Bæði PFS og úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hafa áður komist að skýrri niðurstöðu um að söfnunaraðilar á póstmarkaði ættu að njóta viðbótarafslátta frá gjaldskrá Íslandspósts. Í ákvörðun sinni árið 2012 sagði úrskurðarnefndin: „Að mati nefndarinnar standa rök til þess samkvæmt gögnum málsins að stighækkandi afsláttur fyrir þá sem afhenda reglubundið mikið magn í einu orsaki sparnað fyrir póstrekanda sem taka verði tillit til með hliðsjón af 5. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu. Slík reglubundin viðskipti ættu að auka yfirsýn póstrekanda og þar með skilvirkni og möguleika Íslandspósts til þess að hagræða í rekstri. Slík viðskipti ættu að valda því að betur megi skipuleggja það fjármagn og mannafla sem nota þarf til að taka við pósti frá stórnotendum og koma jafnframt í veg fyrir ofmönnun eða –fjárfestingu.“

Skiptir sáttin við Samkeppniseftirlitið engu máli?
„Við fögnum auðvitað ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar. Það er hins vegar með miklum ólíkindum að innan við tveimur mánuðum eftir að kunngjörð var sátt Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts, sem átti að taka á óviðunandi samkeppnisháttum ríkisfyrirtækisins, skuli stjórnendur þess hafa reynt að bola keppinautum út af póstmarkaði. Það vekur spurningar um hvort Íslandspóstur telji sig yfirleitt bundinn af sáttinni,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Það hlýtur að vera hlutverk stjórnar Íslandspósts, sem fjármálaráðherra skipar, og eftir atvikum þeirrar eftirlitsnefndar sem Samkeppniseftirlitið hefur sett til að hafa eftirlit með því að sáttin sé haldin, að tryggja að stjórnendur fyrirtækisins haldi sig innan ramma laga og reglna og starfi í sátt við umhverfi sitt. Þetta mál sýnir að sáttin virðist litlu hafa breytt um framgöngu þeirra gagnvart keppinautum.“

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning